Um hvað snúast kosningarnar?
Nú í aðdraganda kosninga erum við frambjóðendur spurðir þeirrar spurningar hvað þeirra flokkur standi fyrir og hvað þeir sem einstaklingar ætli að leggja áherslu á nái þeir kjöri til setu á alþingi. Stóru mál Framsóknarflokksins fyrir þessar kosningar eru skýr: Við viljum auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu fasteign. Við leggju til að ungu fólki verði heimilt að taka út það iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðakaup.
Veikir borga ekki. Við viljum draga verulega úr greiðsluþátttöku sjúklinga en eins og dæmin sanna gengur núverandi kerfi ekki upp, sér í lagi fyrir okkur sem búum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem kostnaður vegna ferðalaga og uppihalds getur hlaupið á hundruðum þúsunda.
Við viljum fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs og banna verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum. Afnám verðtryggingar mun sjálkrafa stuðla að vaxtalækkun. Það er sanngirnismál sem allir hjóta að geta verið sammála um.
Við viljum alvöru byggðarstefnu. Í byggðarmálum vill þarf að lyfta grettistaki til að jafna þann aðstöðumun sem myndast hefur á liðnum árum milli landsbyggðanna og höfuðborgarsvæðisins. þar er af nógu að taka. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir því að nota eigi skattkerfið til jöfnunar og líta má til Noregs í því samhengi þar sem slíkt hefur verið gert með góðum árangri, að skattar lækki eftir því sem fjær dregur frá höfuðborginni. Það eru flestir sammála um að íbúar á Sauðárkróki, Blönduósi, Ísafirði eða Grundarfirði búa við aðrar aðstæður er kemur að þjónustu heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins og því ekkert óeðlilegt að skattkerfið sé notað til jöfnunar á þeim aðstöðumun, í raun sjálfsagt. Þá á líka að skoða þá leið að námslán verði afborgunarlaus í einhvern tíma kjósi fólk að flytja út á land að námi loknu. Með slíkri aðgerð er kominn hvati fyrir ungt fólk að flytja út á land og setjast þar að, til lengri eða skemmri tíma, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Grunnforsenda að slíkt sé hægt er að atvinna sé í boði út á landi sem og húsnæði. Gera þarf stórátak í byggingu íbúða á landsbyggðinni og sú leið sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir, að fjölga þjónustuíbúðum fyrir aldraða, mun m.a. gera það að verkum að íbúðum á landsbyggðinni mun fjölga og hreyfing kemst á fasteignamarkaðinn.
Við viljum byggja upp atvinnu um land allt. Atvinna er forsenda byggðar. Mörg vaxtatækifæri eru á landsbyggðinni og má þar nefna dreifing ferðamanna um landið sem er eitt stærsta byggðarmálið að mínu mati. Þar á að efla millilandaflug utan Keflavíkur og að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur.
Við viljum örugg fjarskipta- og raforkukerfi. Það þarf að tryggja öruggt fjarskiptanet og rafmagsdreifingu um land allt og með öllu ólíðandi að árið 2017 geti stór byggðarlög átt það á hættu að verða rafmagslaus um lengri eða skemmri tíma með öllu því óhagræði og kostnaði sem af slíku hlýst. Með öflugum og öruggum fjarskiptatengingum munu opnast tækifæri fyrir fólk að starfa hvar á landi sem er óháð starfstöð fyrirtækisins.
Við þurfum öfluga byggðarstefnu fyrir Ísland. Það þarf að jafna þann aðstöðumun sem hefur myndast á milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og fyrir því munum við Framsóknarmenn berjast á næsta kjörtímabili.
Stefán Vagn Stefánsson
Skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.