Tveir sigrar sömu helgi
Meistaraflokkur karla í körfubolta lék leik í Subway-deildinni föstudaginn 20. október þegar Tindastóll sótti Grindavík heim. Frábær leikur sem endaði með sigri Tindastóls eftir að leikurinn fór í framlengingu. Lokatölur í leiknum voru 96 stig Grindvíkinga á móti 106 stigum hjá Tindastól.
Hörku leikur þar sem Sigtryggur Arnar var með 32 stig, Þórir með 16 stig, 16 stoðsendingar og 9 fráköst, Davis Geks með 23 stig og 5 stoðsendingar, Adomas Drungilas með 15 stig, 13 fráköst og Callum Lawson með 11 stig og 7 fráköst.
Leikurinn var stórskemmtilegur að horfa á. Grindvíkingar náðu að búa til smá forskot en Tindastóll var alltaf í hælunum á þeim. Á tímabili var eins og Grindvíkingar ættu að vera og væru með meira forskot en raun var, vörnin var góð en sóknarleikirnir ennþá betri. Hörkuspennandi leikur sem hefði getað endað á hvorn veginn sem var. Stólarnir misstu aldrei hausinn þrátt fyrir að vera undir og lönduðu þessum dramatíska leik.
Leiðin var ekki heim eftir sigurinn í Grindavík, heldur næsta mál að spila fyrsta leikinn í VÍS bikarnum á móti ÍR í Breiðholtinu, sunnudaginn 22. október. Tindastóll var með sannfærandi sigur 94 stig gegn 64 stigum ÍR. Með þessum sigri er Tindastóll komið áfram í 16 liða úrslit í VÍS bikarnum.
Tindastóll spilaði án Péturs Rúnars og Arnars Björnssonar í þessum leik. Pétur Rúnar er meiddur og hefur setið á bekknum í bata síðustu þrjá leiki, leiklýsandi ÍR-TV smíðaði kenningar um fjarveru Arnars í leiknum. Lærið sagði til sín í leiknum á móti Grindavík og segjum það vera ástæðu fjarveru hans frá leiknum á móti ÍR og blásum á kenningasmiðinn í Breiðholtinu.
Næsti leikur strákanna er á föstudaginn 27. október, þegar Valur heimsækir Síkið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.