Tveir gómsætir kjúklingaréttir
Matgæðingar vikunnar eru þær Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir og Díana Dögg Hreinsdóttir. Þær búa á Sauðárkróki og eiga tvær dætur, sex og tveggja ára. Dúfa vinnur hjá Steinull en Díana í íþróttahúsinu. Þær segjast ætla að gefa okkur uppskriftir að tveimur réttum sem séu mikið eldaðir á þeirra heimili, kannski vegna þess að Dúfa elskar kjúkling.
AÐALRÉTTUR 1
Mexíkóskt lasagna
5-6 kjúklingabringur
½ laukur
1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur
1 bréf burritos kryddmix
1 krukka salsa sósa (medium eða sterk)
1 krukka ostasósa
½ l matreiðslurjómi
smá klípa af rjómaosti (má sleppa)
1 pakki tortillur (minni gerðin)
Mozzarellaostur
Aðferð:
Skerið laukinn og paprikuna fínt og kjúklingabringurnar í litla bita. Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita. Steikið laukinn og paprikuna þar til byrjar að mýkjast, bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram. Hellið kryddinu yfir og steikið í smá stund til viðbótar. Hellið sósunum og matreiðslurjóma yfir og látið suðuna koma upp. Hrærið rjómaosti saman við sé, hann notaður. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur.
Leggið tortillaköku í botn á eldföstu formi. Setjið kjúklingasósuna yfir og síðan á víxl tortillakökur og kjúklingasósu. Endið á kjúklingasósunni. Stráið mozzarella osti yfir og setjið í 180° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður.
AÐALRÉTTUR 2
Kjúklingasalat
900 g kjúklingur
2 msk. soyasósa
4 msk. ólífuolía
2 hvítlauksrif, söxuð
100 g spínat
1 poki klettasalat
½ krukka fetaostur
1 askja kirsuberjatómatar
½ rauðlaukur
1 lítil askja jarðaber
1 poki furuhnetur, ristaðar
Aðferð:
Gerið marineringuna með því að blanda saman ólífuolíu og hvítlauksrifjum og hræra vel. Setjið kjúklinginn í eldfast mót, hellið marineringunni yfir og látið marinerast eins lengi og tími gefst eða frá 15 mínútum til fjögurra klukkustunda. Setjið inn í 175° heitan ofn og eldið í u.þ.b. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og aðeins farinn að dökkna. Setjið spínat og klettasalat í skál, skerið hin hráefnin í bita og blandað saman við salatið. Skerið kjúklinginn í bita og setjið út í salatið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.