Tóti túrbó heldur heim í Vesturbæinn
Körfuknattleiksmaðurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er genginn til liðs við uppeldisfélagið KR á nýjan lek en eins og flestir ættu að vita þá lek hann með liði Tindastóls síðasta vetur. Þórir skrifar undir tveggja ára samning við KR.
Í frétt á mbl.is segir að Þórir hafi leikið sinn fyrsta meistaraflokksleik með KR aðeins 16 ára gamall en hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með liðinu.
Rétt eins og hjá liði Tindastóls var veturinn hjá Þóri rússíbanareið. Hann fór mikinn í lemstuðu liði Stólanna framan af móti og var einfaldlega besti leikmaður Subway-deildarinnar fyrir jól. Síðan þegar allir reiknuðu með að sól færi að rísa hjá liðinu eftir áramótin, þegar leikmenn skiluðu sér til baka eftir meiðsli, þá kviknaði sjaldan neistinn í liðinu og því fór sem fór.
Ekki er að efa að Tindastólsmenn senda Þóri góðar kveðjur þó þeim þyki nú sennilega vænna um hann í rústrauðu treyjunni en þeirri röndóttu sem hann ætlar að notast við í vetur. Takk fyrir komuna Tóti túrbó!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.