Torskilin bæjarnöfn - Skoptastaðir í Svartárdal
Mjer finst rjett að taka þetta nafn með, þótt áður hafi verið bent á rjetta nafnið: Skopta (sjá Safn lV. bls. 433). Því að öðru leyti er það alveg órannsakað. Frumheimild þessa nafns er að finna í fjárheimtuskrá Þingeyrarklausturs árið 1220 (eða fyr). Klaustrinu er þar eignaður sauðatollur á „Scoptastodom“ (DI. I. 400).
Samnefni er að finna í örnefnunum „Skoptahólmr“ og Skoptahólmsklettur (DI. II.116) á Breiðafirði. Eru nöfn þessi eflaust kend við m.n. Skopti. Þekktasti maður með þessu nafni er víst Skopti Skagason – Tíðinda-Skopti – mágur Hákonar Jarls Sigurðssonar ( Ólafs.s Tr. bls. 206); og í þeirri ætt hefir það borist hingað til lands með Skaga Skoptasyni er nam austan Eyjafjarðar (Landn. bls. 159).
Vísu Hólmgöngu-Bersa hafa menn og kunnað, ekki sýzt fyrir það, að hún stóð eingöngu í sambandi við víg:
Einn beið úlfa gremir
andrán í dal þambar
fell fyr frænda spilli
fram Þórarinn rammi:
lífsspell biðu lýðir
Loptr hné Álfr og Skopti. *)
Af þessu er auðsætt, að Skoptanafnið hefir þekst allvel á Norðurlandi, þar sem bæjarnafnið finst, en verið fáheyrt annarsstaðar. Að Skopta- breyttist í Skotta- er samkvæmt málslögum - þ.e. afturvirk tillíking, sbr. tóft - tótt og skopt - skott í framburði.
Skopt þýðir í norrænu (höfuð) hár skylt skúfur, á fornþ. schopf, þ.e. hár og leitt af gotn. skuft sem merkir hið sama (sjá Torp bls. 633). Mannsnafnið Skopti mun því þýða: hárprúður (vel hærður) maður. Skoptastaðir er því rjetta nafnið og ætti að fella niður Skotta-nafnið.
*) Korm.s. bls. 39.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 43. tbl. Feykis 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.