Torskilin bæjarnöfn :: Seyla á Langholti

Þetta bæjarnafn kemur mjög víða fyrir í fornum skjölum og brjefum, og er ritað með y (ekki i. Sjá Dipl. Ísl. VIII. b., bls. 231 og víðar. Dipl. Ísl. VII. b., bls. 773 og víðar). Sem bæjarheiti kemur það aðeins fyrir í Skagafjarðarsýslu, og má telja það merkilegt mjög.
Úr Seylulandi hefir Litla-Seyla (nú kallað Brautarholt) verið bygt fyrir fáum öldum, og eftir það nefnist heimajörðin Stóra-Seyla (geta má þess, að Grófargil hjet að fornu Grafargil, og er bygt úr Seylulandi, því að 1508 fylgir það Seylu, en Litla-Seyla er þá ekki til. Sbr. kaupmálabrjef Þorvarðar Loftssonar og Kristínar Gottskálksdóttur, Dipl. Ísl. Vll, bindi). Jeg hygg að orðið seyla merki bæði kíl og keldu (sbr. ritgerð dr. Finns Jónssonar, Safn IV. b., bls. 575). Það er sama og fornenska orðið Shoyl, er þýðir kíldrag, eða jafnvel litla á (sbr. Æfisögu Benjamíns Franklins, bls. 100). Norska orðið söle virðist líka geta þýtt keldu. Bærinn Seyla stendur á hól, en meðfram hólnum að vestan hefir myndast kelda og lækjardrag lítið og hlýtur bærinn að draga nafn af því.
Geta vil ég þess hjer, að í máldaga fyrir Staðarkirkju á Reykjanesi er „seyla“ haft um rekamark. Þar segir svo: „Kirkjan á … þriðjung af öllum reka á nesodda á Kollafjarðarnes að seylu þeirri, er gengur úr Gullsteinum og að Hvalsá“ (Dipl. Ísl. V. bindi, bls. 591). Hjer hygg jeg að átt sje oftast við kíl eða síki, frekar en mýri, sem rekamörk eða landamerki munu sjaldnast vera miðuð við. Enn má benda á það, sem kunnugt er, að bátalegan fram undan Bessastöðum á Álftanesi kallast Seyla.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birt í 6. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.