Torskilin bæjarnöfn - Dúkur í Sæmundarhlíð
Þær heimildir, sem jeg hefi um nafnið, hafa það óbreytt með öllu, eins og það er nú. En því miður ná ekki heimildirnar, nema til ársins 1446 (nafnið kemur allvíða fyrir; sjá meðal annars Dipl. Isl. IV. b., bls. 701 og IX. b., bls. 321) og því alls ekki loku fyrir það skotið, að nafnið hafi ekki að einhverju leyti breyzt. Ef til vill á nafnið eitthvað skylt við útlit umhverfisins, því að landið er grösugt mjög, niðri um sig; ellegar dregið af einhverjum sljettum bletti í túninu. En þetta er mjög óvíst, og býsna mikill frumleiki fólginn í þessu nafni, að líkja
því við dúk, ef það væri uppruninn. Geta mætti og þess til, að bærinn hafi upphaflega heitið Dúksstaðir og verið kendur eiginnafn manns eða auknefni. Að vísu þekkist ekki auknefnið “dúkur“ (dúkur merkir ávalt klæði í eldra máli) hjer á Íslandi, en þektst hefir það til forna í Noregi, og það er ekkert því til fyrirstöðu, að fyrsti bóndi á Dúki hafi haft auknefnið ,,dúkur“, þótt engar sagnir sje til um það, enda má fullyrða það, að auknefni, sem geymst hafa í fornum heimildarritum allskonar, eru lítill hluti þess fjölda, sem skapast hafa öld eftir öld og glatast.
Og nöfnin, sem til eru í norska fornbrjefasafninu: Halldór dúkr, Þorkell dúkr og Arnfinnur Dúksson eru hrein norræn, eins og mörg hinna fegurstu mannsnafna á Íslandi (sjá orðabók F. Fritzners undir orðinu : dúkr). Ef bærinn hefir að upphafi heitið Dúksstaðir, er auðsætt að það hefir styzt mjög snemma í núverandi nafn.
Svipuð stytting á sjer stað í fjölda bæjaheita hinna elztu, t.d. Strjúgur, áður Strjúgsstaðir, Kúla, áður Auðkúlustaðir, Dunkur, áður Dungaðarstaðir, Ölkofri, áður Ölkofrastaðir, Beigaldi, áður Beigaldastaðir og fjöldamörg önnur, víðsvegar um land. Hafi nafnið upphaflega endað á staðir, er það vafalítið dregið af auknefni, því sú ending er undantekningarlítið skeytt við mannanöfn, eða auknefni.
Og þegar þess er gætt, að bæjanöfn í Sæmundarhlíð eru allmörg, sem enda á -staðir, virðist þessi tilgáta allsennileg um bæjarnafnið (bæirnir hafa verið þessir í röð frá Dúki: Geirmundarstaðir, Staður í Reynisnesi, nú Reynistaður, Hafsteinsstaðir og Ögmundarstaðir).
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 2. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.