Torfkofar og landabrugg - Ljósmyndasýning í Húnaþingi vestra

Á fjölskylduhátíðinni Eldur í Húnaþingi, sem haldin var í lok júlí mánaðar sl., opnaði Húnaþing vestra, við formlega athöfn, ljósmyndasýningu í Brúarhvammi á Hvammstanga. Sýningin er útiverk sem skartar gömlum ljósmyndum frá Hvammstanga og nágrenni ásamt textaskýringum við hverja mynd. Myndirnar sýna mannlíf og umhverfi í Húnaþingi vestra frá því fyrir aldamótin 1900 og fram eftir 20 öldinni.

Á vef Húnaþings vestra er sagt frá því að markmið sýningarinnar er samtímis að lífga upp á  umhverfið með skemmtilegum og fræðandi myndum en um leið að og að miðla með upplýsandi og einföldum hætti þekkingu á sögu svæðisins, jafnt til íbúa sem gesta.

Menningarráð Norðurlands vestra styrkti verkefnið með styrk að fjárhæð kr.250.000.- og vill sveitarstjórn Húnaþings vestra þakka menningarráði fyrir veittan stuðning.

Ína Björk Ársælsdóttir, umhverfisstjóri Húnaþings vestra, fékk Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðing og doktorsnema til liðs við sig við verkefnið. Leitaði hann víða fanga en myndirnar á sýningunni eru frá Þjóðskjalasafni Íslands og Bóka- og skjalasafni Húnaþings vestra auk þess sem nokkrar myndir eru úr einkaeigu. Texti við myndirnar var einnig unnin af Vilhelm Vilhelmssyni.

Þess skal getið að Brúarhvammur er heiti á nýju útvistarsvæði Húnaþings vestra á Hvammstanga við Syðri-Hvammsá nærri hafnarsvæðinu og þar blasir sýningin við gestum og gangandi.

Ljósmyndir: Húnaþing vestra

.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir