Tónleikar í Sæluviku á Sauðárkróki

Kammerkór Norðurlands

Sunnudaginn 26. apríl kl. 17:00 heldur Kammerkór Norðurlands tónleika í Frímúrarasalnum

 

 

 

við Borgarmýri á Sauðárkróki. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson sem stjórnað hefur kórnum síðan árið 2000.

 

Á tónleikunum verða eingöngu flutt íslensk verk, sönglög og þjóðlagaútsetningar, og eru þrjú laganna eftir þrjú tónskáld frumflutt í þessari tónleikaröð kórsins og er eitt þeirra, Heimsósómi, sérstaklega samið fyrir Kammerkórinn.

Í Kammerkórnum sem átti 10 ára afmæli á fyrra ári eru tæplega 20 söngvarar víðsvegar af Norðurlandi, frá Blönduósi austur til Kópaskers. Á efnisskrá kórsins hafa oftast verið tónverk, bæði íslensk og erlend sem ekki heyrast oft í flutningi íslenskra kóra. Einnig hefur kórinn flutt verk sérstaklega samin fyrir hann. Á þessum 10 árum hefur kórinn haldið fjölda tónleika víðsvegar um Norðurland en einnig á Vesturlandi, Suðurlandi og í Reykjavík.

 

Kórinn hefur einnig verið í samstarfi við aðra, t.d. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Akureyrarkirkju og tekið þátt í Kórastefnu við Mývatn. Í tilefni afmælisársins stefnir kórinn á útgáfu síns fyrsta hljómdisks.

 

Á þessu ári hefur kórinn haldið tónleika á Húsavík, Akranesi, Selfossi, í Langholtskirkju, á Dalvík og Akureyri. Eftir tónleikana á Húsavík í febrúar sl. skrifaði Sigurður Hallmarsson meðal annars í Skarp:

„ . . Söngskráin var nokkuð sérstök með þjóðlegum blæ og fyrir kom að um frumflutning væri að ræða. Þægilega lét í eyrum vöggulag Guðmundar Óla og var enda kórinn beðinn að endurtaka það. Allt var sungið án undirleiks, hópurinn er mjög samstilltur og má segja að þessi kór sé frábært hljóðfæri og vel á það leikið. Okkur er mikill sómi sýndur með þessari heimsókn kórsins og tónleikagestir fögnuðu vel frábærum söng.  .  .“

 

Eins og áður segir hefjast tónleikarnir í Frímúrasalnum kl. 17:00 og er aðgangseyrir kr. 1500,-  Því miður er ekki hægt að taka við greiðslukortum.

 

Menningarráð Eyþings styrkir Kammerkórinn vegna þessara tónleika

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir