Tólf leikir hjá flokkum unglingaráðs um helgina
Um helgina fór fram fjölliðamót hjá MB10 stúlkna og drengja ásamt því að bæði 10 fl. drengja, 12. fl. karla og Ungmennaflokkur karla spiluðu einn leik hver.
MB10 stelpur fóru í Icelandic Glacial höllina í Þorlákshöfn og spiluðu þar fimm leiki í A-riðli, þrjá á laugardeginum og tvo á sunnudeginum. Stelpurnar voru þarna mættar til að spila á móti bestu liðum landsins og stóðu sig hrikalega vel þrátt fyrir að hafa tapað fjórum leikjum og unnið einn. Það sem stendur upp úr eftir helgina er leikgleðin og liðsandinn og þar sem þær gistu allar saman er þetta í leiðinni hópefli fyrir liðið og foreldrana. Því miður var heppnin ekki með þeim að lokum því þrjú lið sátu í sama sæti eftir alla leikina og réði því innbyrðis viðureignir því að þær detta niður í B-riðil á næsta móti, sem verður haldið í febrúar. Þær standa því eftir reynslunni ríkari eftir þetta mót og ætla sér að sjálfsögðu aftur upp í A riðil.
Úrslit leikjanna voru eftirfarandi;
Tindastóll – Grindavík 10 - 30
Tindastóll – Þór. Þ/Hamar 20 - 28
Tindastóll – KR 8 - 17
Tindastóll – Valur 14 – 16 - tvíframlengdur leikur! Voru óheppnar að taka ekki þennan
Tindastóll - Keflavík 27 - 24
MB10 strákar spiluðu svo í B-riðli í Origo höllinni í Reykjavík eftir að hafa unnið C-riðil á síðasta móti. Spiluðu þeir tvo leiki á laugardeginum og tvo á sunnudeginum en þar sem Goðamótið í fótbolta var haldið á sama tíma á Akureyri fóru aðeins fimm strákar af stað suður með því hugarfari að reyna að halda sér uppi í riðlinum sem og tókst. Strákarnir byrjuðu fyrsta leikinn frekar hauslausir og voru svona að átta sig á hver var með hvaða hlutverk í liðinu og virkuðu frekar óöruggir með sig. Í öllum hinum leikjunum var eins og ljós hafi kviknað og þeir voru hreint út sagt frábærir, geggjuð vörn og góður og hraður leikur sem var spilaður. Þrátt fyrir tap í öðrum og þriðja leik hefði, með smá heppni, sigurinn alveg eins getað verið þeirra í þeim leikjum. Síðasta leikinn tóku þeir svo í sínar hendur strax frá fyrstu mínútu og héldu yfirburða forystu út leikinn sem hinir náðu aldrei að ögra. Frábærir félagar þarna á ferð sem bæta sig á hverju móti bæði sem einstaklingar og liðsheild.
Úrslit leikjanna var eftirfarandi;
Tindastóll – Njarðvík 6 – 26
Tindastóll – Stjarnan 22 – 33
Tindastóll – Fylkir 30 – 34
Tindastóll - Breiðablik 30 – 10
Ungmennaflokkur karla spilaði á laugardaginn á móti Keflavík í Blue höllinni og endaði leikurinn 72-66 fyrir Keflavík. Svekkjandi tap því strákarnir eru búnir að vinna alla sína leiki fram að þessu en sitja samt sem áður í efsta sæti með 16 stig og Keflavík í því fjórða með 8 stig.
10.fl. drengja spilaði bikarleik á móti Haukum á Ásvöllum á sunnudaginn og endaði leikurinn 123 – 36 og eru þeir þar með dottnir út úr bikarkeppninni.
12.fl. drengja spilaði einnig bikarleik á móti ÍR í TM hellinum á sunnudaginn og endaði leikurinn 100-68 fyrir ÍR og eru þeir þar með líka dottnir út úr bikarkeppninni.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.