Tökum samtalið og kveikjum neistann
Fræðslunefnd Skagafjarðar bókaði á fundi sínum í gær, miðvikudaginn 14. febrúar, að skipa tvo vinnuhópa sem snúa að starfsemi leik- og grunnskóla í Skagafirði og að skipuleggja kynningu á verkefninu Kveikjum neistann. Með þessari grein viljum við kynna forsendur nánar fyrir íbúum.
Kveikjum neistann
Umræðan um PISA könnunina á dögunum hefur vart farið fram hjá nokkrum og hefur árangur íslenskra skólabarna hrapað undanfarinn áratug. Þrátt fyrir að við höfum ekki aðgang að niðurstöðu skóla í Skagafirði sérstaklega má draga þá ályktun að staðan sé ekki nægilega góð hvað varðar læsi barna. Það er ekki þannig að börnin séu upp til hópa ólæs heldur eru tækifæri til að gera betur. Vestmannaeyjabær hefur brugðist við þessu með verkefni sem kallast Kveikjum neistann.
Kveikjum neistann er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni við Grunnskólann í Vestmannaeyjum sem fór af stað haustið 2021. Að verkefninu standa Vestmannaeyjabær, Háskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins, auk mennta- og barnamálaráðuneytis. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:
-
Að 80% nemenda séu fulllæsir við lok 2. bekkjar. Unnið verði með réttar áskoranir miðað við færni og lestraráhugi skapaður með lestri góðra bóka.
-
Áhersla á markvissa kennslu lesskilnings svo nemendur geti lesið sér til gagns.
-
Að nemendur verði framúrskarandi í skapandi skrifum og framsögn.
-
Að nemendur kunni samlagningu, frádrátt, margföldun og deilingu við 12 ára aldur. Þeir öðlist síðan kunnáttu og færni í öðrum þáttum stærðfræðinnar í 8.-10. bekk .
-
Að nemendur öðlist ástríðu fyrir náttúrufræði/umhverfisfræði.
-
Að nemendur bæti hreyfifærni, hreysti og einbeitingu.
Fræðslunefnd Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum í gær að hafa samband við forsvarsmenn verkefnisins og fá sem fyrst kynningu á því fyrir kjörna fulltrúa, skólastjórnendur og kennara í Skagafirði. Í kjölfarið yrði metið hvort tilefni gæti verið til þess að útfæra verkefnið fyrir skóla Skagafjarðar í samstarfi við starfsfólk og foreldra.
Spretthópur um nýja nálgun í leikskólamálum
Nokkur sveitarfélög hafa riðið á vaðið og gert breytingar á starfsemi leikskóla til þess að minnka álag á starfsfólk og stytta vinnudag barna, þar sem kostur er á. Útfærslurnar hafa verið fjölbreyttar en við fyrstu sýn er árangurinn mikill og ánægja með breytingarnar þar sem þær hafa verið innleiddar. Þá skilaði HLH ráðgjöf nýverið til sveitarstjórnar úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Skagafjarðar ásamt tillögum, þar sem þó nokkrar sneru að fræðslumálum.
Fræðslunefnd lagði til við byggðarráð að skipa spretthóp á breiðum grunni til þess að skoða hvað önnur sveitarfélög hafa verið að gera í tengslum við breytingar á skipulagi leikskólastarfs. Spretthópnum er gert að skoða möguleikana á því hvort tækifæri séu til þess að efla enn frekar leikskólastarf í Skagafirði, fyrir börn, foreldra og starfsfólk. Kópavogsbær reið á vaðið með Kópavogsmódelið síðasta haust en síðan hafa m.a. Hafnarfjörður, Akureyri og Garðabær gert breytingar og fleiri sveitarfélög hafa lýst því yfir að vinna sé í gangi. Í Kópavogi varð niðurstaðan að auka verulega sveigjanleika í dvalartíma barna, tekjutengja leikskólagjöld og bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir sex tíma eða styttri vistun barna. Þessar breytingar hafa skilað góðum árangri að sögn bæjarstjóra, vistunartími barna hefur styst og mönnun gengur mun betur en undanfarin ár. Leikskólabörn upplifa minna álag og meiri stöðugleika í þjónustunni, starfsfólk er ánægðara og lokanir vegna manneklu sáust ekki síðasta haust.
Lögð er áhersla á að í spretthópnum sé a.m.k. einn fulltrúi foreldra, einn fulltrúi starfsmanna og einn fulltrúi stjórnenda úr hverjum leikskóla svo hægt sé að koma öllum sjónarmiðum á framfæri.
Starfshópur um rekstur og stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði
Fræðslunefnd lagði jafnframt til við byggðarráð að skipa starfshóp til þess að skoða hvort tækifæri felist í skipulagsbreytingum í stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði. Rétt er að taka það fram að skipun slíks starfshóps er ekki boðun um breytingar. Þrír meginþættir í starfi stjórnenda grunnskóla og leikskóla er fagleg þekking á skólastarfi, rekstur og mannauðsstjórnun.
Hlutverk starfshópsins yrði að ræða opinskátt rekstur og stjórnun skólanna okkar og greina hvort tækifæri séu til þess að auka samvinnu milli skóla og/eða skólastiga eða sérhæfingu í þessum meginþáttum starfsemi stjórnenda. Í því felst ekki að gera tillögur um lokun deilda eða eininga svo það sé skýrt tekið fram. Í nýlegri úttekt HLH ráðgjafar fyrir sveitarstjórn er ýmsum spurningum og staðreyndum varpað fram sem við teljum rétt að séu skoðaðar betur, auk annarra hugmynda um hvort tækifæri séu til að nýta enn betur þann góða mannauð sem rekur og stýrir skólastarfi í Skagafirði.
Tökum samtalið
Við ítrekum að ekki er hér um að ræða boð um breytingar sem þegar hafa verið ákveðnar. Vinnan er hugsuð til að fá fram öll sjónarmið og skoða hvort tækifæri séu til að bæta þjónustu við börn, foreldra og starfsmenn sveitarfélagsins. Ein möguleg niðurstaða getur verið sú að engra breytinga sé þörf. Annars staðar gætu komið tillögur að breytingum.
Við viljum ekki bíða eftir því að ríkisstjórnin komi með lausnir að ofan heldur taka af skarið og skoða hvað er mögulegt hér í Skagafirði. Öll viljum við það besta fyrir börnin í okkar samfélagi, að ferðalagið í gegnum skólakerfið verði ánægjulegt og skili þeim bestu mögulegu menntun sem í boði er. Menntun í þessum skilningi er fjölbreytt og getur vísað til bóknáms, verknáms eða félagslegrar getu. Reglulegt endurmat og endurskoðun á núverandi kerfi er holl en krefjandi æfing fyrir öll samfélög. Við teljum það okkar skyldu sem kjörnir fulltrúar að velta við steinum og skoða hvort tækifæri séu til staðar til þess að gera betur.
Höfundar eru formaður og varaformaður fræðslunefndar Skagafjarðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.