„Tökum með okkur jákvæðu kaflana og lærum af hinu“

Bryndís Rut fer yfir málin með Maríu Dögg. MYND: ÓAB
Bryndís Rut fer yfir málin með Maríu Dögg. MYND: ÓAB

Feykir tók púlsinn á fyrirliða Stólastúlkna, Bryndísi Rut Haraldsdóttur frá Brautarholti, eftir að fyrri umferð Bestu deildar kvenna lauk nú í vikunni. Lið Tindastóls er í áttunda sæti með átta stig eftir níu leiki. Liðin í fallsætunum, Selfoss og ÍBV, eru bæði með sjö stig. Þrír síðustu leikir liðsins voru allir gegn sterkum andstæðingum og töpuðust allir frekar illa. Það er þó enginn mæðutónn í Bryndísi sem segir liðið læra af reynslunni og koma sterkari til leiks í seinni umferðina.

Liðið lék í vikunni við Þór/KA á Akureyri en eftir að hafa haldið hreinu í fyrri hálfleik og byrjað þann seinni af miklum krafti þá gengu heimastúlkur á lagið eftir að hafa skorað fyrsta markið á 62. mínútu. Leikurinn endaði 5-0. Feykir spurði Bryndísi Rut hvað henni fannst um frammistöðuna. „Mér fannst leikurinn kaflaskiptur, jafn fyrri hálfleikur en Þór/KA átti betri færi en við, förum 0-0 í hálfleik. Fyrstu 15 mínúturnar í seinni hálfleik vorum við líklegri til að skora og við gerum það en dómarinn sá þetta öðrum augum en allir aðrir svo markið var tekið af okkur. Síðustu 30 mínútur áttu Þór/KA leikinn, við fáum á okkur mörk með stuttu millibili og við náum okkur ekki aftur á strik.

Hvað er það sem gerist í fyrsta markinu? „Í fyrsta markinu náum við ekki að hreinsa boltann úr horni og fylgjum ekki mönnunum, vantaði meiri ákveðni í okkur.“

Nú er deildarkeppnin hálfnuð. Hvernig finnst þér frammistaða Stólastúlkna hafa verið það sem af er og hvað þarf að gera betur í síðari umferðinni? „Frammistaða liðsins í heild sinni hefur verið ágæt, við erum með tvo sigra, tvö jafntefli en fimm töp. Við erum ekki í fallsæti og enn er eftir heil umferð og úrslitakeppni svo mér finnst þetta vera á allt í lagi stað og ekki langt í liðin fyrir ofan okkur. Við verðum að halda áfram að bæta okkar leik en jafnframt verða betri í að bregðast við mótlætinu. Eftir fyrstu umferðina þá er mikilvægt líka að taka með okkur ákveðna hluti, jákvæða kafla sem við höfum átt og læra af hinu. Lærum af reynslunni og komum sterkari í seinni hlutann!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir