Tóku fyrri sláttinn með 3ja daga áhlaupi

Rúnar í réttum með dóttur sinni, Lilju Björgu.MYND AÐSEND
Rúnar í réttum með dóttur sinni, Lilju Björgu.MYND AÐSEND

Rúnar Aðalbjörn Pétursson, býr í Hólabæ í Langadal ásamt Auði Ingimundardóttur sambýliskonu og börnunum þeirra Pétri Inga og Lilju Björgu. Rúnar er starfandi bóndi með búfræðimenntun og sveinspróf í húsasmíði. Þau búa á blönduðu búi með tæplega 40 mjólkandi kýr og 400 vetrarfóðraðar kindur. Ásamt því vinnur Auður sem ráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.

Rúnar og Auður keyptu jörðina í lok árs 2018 af foreldrum Rúnars, þeim Pétri og Þorbjörgu, sem enn þann dag í dag aðstoða þau mikið við bústörfin og segja þau það algjörlega ómetanlegt. „Árið 2016 var allt endurnýjað í fjárhúsum og geldneytafjós var tekið í gagnið árið 2017. Það var því búið að gera mikið þegar við kaupum jörðina. Nú standa einnig yfir framkvæmdir, þar sem við erum að byggja nýtt 780 m2 lausagöngufjós með mjaltaþjóni. Stefnt er á að taka það í notkun í nóvember á þessu ári.“

Nú er tíðarfarið búið að vera alls konar í sumar, hvernig er staðan hjá ykkur? „Árið 2024 er búið að vera krefjandi í búskapnum veðurfarslega séð. Vorið lét bíða eftir sér sem hafði í för með sér tafir á vorverkum, svo sem skítkeyrslu, jarðvinnslu og áburðardreifingu og svo setti kuldakastið í byrjun júní stórt strik í reikninginn þar sem búið var að koma nánast öllu lambfé út á græn grös en við ákváðum þá að hýsa nánast allt féð aftur sem endaði í tæpum fimm sólarhringum. Þetta er tími sem mun seint gleymast.“

Var fyrri sláttur seinni í ár en fyrri ár? „Fyrri sláttur var aðeins seinni á ferðinni í ár en í fyrra en vegna yfirstandandi framkvæmda ákváðum við að taka hann með áhlaupi og með hjálp góðra nágranna náðist að klára hann á þremur sólarhringum frá því að sláttur hófst og þangað til allar rúllur voru komnar í stæðu.“

Finnur þú mun á sprettu? „Sprettan var mjög hæg framan af og leit ekki vel út með heyfeng í byrjun sumars. Við sluppum þó tiltölulega vel frá kalskemmdum þó eitthvað hafi borið á blettakali í túnum.“ Sérðu fram á minni hey? „Heyfengur í ár verður í meðallagi en við búum ágætlega að því að árið í fyrra var metár í uppskeru hjá okkur og eigum því töluverðar fyrningar.“

Staðan á seinni slætti? „Þessa dagana [síðustu vikuna í ágúst] er verið að vinna í að taka seinni slátt og grænfóður og er sprettan mjög góð en helsta vandamálið hefur verið votviðrið síðustu daga og vikur. Má þó segja að við séum ágætlega heppin með það að öll tún eru vel fær þrátt fyrir úrhelli síðustu daga. Vonum að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir svo við náum að klára seinnislátt fyrir göngur sem hefjast um mánaðamótin.“

Eru þið bjartsýn á framhaldið? „Já, við erum ágætlega bjartsýn á framhaldið. Við stöndum í þeirri meiningu að íslenskur landbúnaður og íslenskar landbúnaðarafurðir standi framarlega á heimsvísu með tilliti til dýravelferðar og heilnæmi afurða og getum við því verið stolt af þeim vörum sem við erum að framleiða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir