Tófur sendar til feðra sinna
Félagarnir Guðmundur Hjálmarsson frá Korná og Þórður Hjörleifsson frá Syðra Laugarlandi í Öngulsstaðahreppi hinum forna lágu á dögunum eina nótt fyrir tófum við bæinn Sölvanes í Lýdó.
Þá nóttina komu fimm tófur að vitja bæjarins og voru þær óðara sendar til feðra sinna. Að sögn heimamanna er mikill tófugangur á þessum slóðum og sem betur fyrir sauðfjárbændur finnast enn menn líkt og Guðmundur og Þórður sem vilja leggja á sig að liggja fyrir þeim. 2500 krónur fást fyrir skottið til þeirra sem ekki teljast til refaskytta sveitarfélagsins. Heimamenn tala um að töluvert hafi vantað af lömbum af fjalli í haust og ekki leiki mikill vafi á því að þar eigi tófan stærstu sök. Enda virðist nú svo komið að hún sé búin að tortrýma öllu kviku til fjalla og haldi sig því í byggð. Bændum til lítillar ánægju.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.