Tindastólsstúlkur sátu eftir þrátt fyrir sigur á Hömrunum
Síðustu leikirnir í C-riðli 1. deildar kvenna fóru fram síðastliðið föstudagskvöld. Völsungur Húsavík hafði fyrir löngu tryggt sér sigurinn í riðlinum og voru þar með komnar í úrslitakeppni um sæti í efstu. Baráttan um annað sæti riðilsins og sömuleiðis þátttöku í úrslitakeppninni stóð á milli Tindastólsstúlkna og Fjarðabyggðar.
Fjarðabyggð hafði skotist upp fyrir Stólana í riðlinum með sigri á Sauðárkróksvelli fyrr í mánuðinum og voru með þriggja stiga forskot fyrir lokaumferðina. Þær spiluðu við Sindra á heimavelli sínum á Norðfjarðarvelli en Tindastóll sótti Hamrana heim í Bogann á Akureyri.
Lið Hamranna náði forystunni um miðjan fyrri hálfleik með marki Andreu Daggar Kjartansdóttur og höfðu forystuna í hálfleik. Ólína Sif Einarsdóttir jafnaði metin á 60. mínútu og á 84. mínútu gerði Laufey Rún Harðardóttir, sem vanalega er í markmannsbúningnum en ekki í þetta skiptið, sigurmark Stólastúlkna. Lokatölur 1-2.
Á sama tíma sigraði hinsvegar lið Fjarðabyggðar gesti sína frá Hornafirði með sömu markatölu og skildu því lið Tindastóls eftir með sárt ennið. Frammistaða Stólastúlknanna í sumar var alveg ágæt en liðið var lengst af í öðru til þriðja sæti riðilsins. Þær náðu ágætum úrslitum gegn Völsungi sem vann alla leiki sína í riðlinum nema heimaleikinn gegn Tindastóli. Lið Fjarðabyggðar hafði hinsvegar tak á Tindastólsliðinu, vann báða leiki liðanna og það varð dýrkeypt. Akkilesarhæll liðsins í sumar var sóknarleikurinn og þá aðallega að koma boltanum í mark andstæðinganna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.