Tindastóll í Evrópukeppni
Í tilkynningu sem körfuknattleiksdeild Tindastóls sendi frá sér í dag kemur fram að karlalið félagsins muni taka þátt í Evrópukeppni á komandi tímabili. Liðið hefur verið skráð til keppni í FIBA Europe Cup þar sem eigast við lið hvaðanava að úr Evrópu.
„FIBA heldur úti tveimur Evrópukeppnum og má segja að Europe Cup sé neðri deildin af þeim. Reikna má með að Tindastóll fari í forkeppni líkt og Þór frá Þorlákshöfn gerði í fyrra en 32 lið munu leika í riðlakeppni keppninnar. Leiðin í gegnum forkeppnina hefur undanfarin ár verið ströng og sem dæmi voru 22 lið að keppa um átta laus sæti í fyrra.
Fyrirkomulagið hefur verið þannig að forkeppnin fer fram á fjórum stöðum og þurfa liðin að sigra þrjá leiki til að komast í hina eiginlegu riðlakeppni. Útsláttarkeppni þar sem lið geta leikið frá 1 til 3 leiki. Það er því ekki ljóst hvar Tindastóll mun hefja keppni eða hversu marga leiki þarf að leika í forkeppninni. Dregið verður í keppnina 8. ágúst í Munchen en forkeppnin fer fram í lok september eða byrjun október,“ segir í tilkynningunni.
Þó margt sé óráðið enn er ljóst að það eru spennandi tímar framundan hjá liði Tindastóls og það hlýtur að hafa verið draumur margra leikmanna að taka þátt í Evrópukeppni með Stólunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.