Tindastóll fer af stað með unglingaflokk kvenna í körfunni
Stjórn Tindastóls tók þá ákvörðun í vor að tefla ekki fram liði í meistaraflokki kvenna í körfubolta næstkomandi vetur. Í staðinn var ákveðið að fara af stað með unglingaflokk kvenna (18-20 ára) ásamt því að halda áfram með stúlknaflokk. Gengið hefur verið frá því að Harri Mannonen, aðstoðarþjálfari mfl. karla, sjái um þjálfun bæði unglinga- og stúlknaflokks en Erna Rut Kristjánsdóttir verður honum til aðstoðar.
Talsverð umræða hefur verið á Króknum um framtíð meistaraflokks kvenna og sumir ósáttir við að hann verði lagður niður. Að mati stjórnar er eðlilegast að fara af stað með unglingaflokk þar sem meistaraflokkshópurinn síðasta vetur var að langmestu leiti skipaður stúlkum undir tvítugsaldri sem oftar en ekki voru að spila gegn mun eldri og sterkari leikmönnum. Einnig telur stjórnin það best að þær spili við jafnaldra sína í unglingaflokki og telja það meiri áskorun fyrir stelpurnar en að spila í 1. deild kvenna. Síðan farið var af stað með mfl. kvenna fyrir tveimur árum hafa sjö leikmenn lagt skóna á hilluna eða farið annað.
Stjórn Kkd. Tindastóls hefur því ákveðið að hlúa betur að stúlkunum og leggja metnað í starf yngri flokka, til að mynda með ráðningu Harri Mannonen, áður en haldið verður aftur af stað með meistararaflokk kvenna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.