Tindastóll á toppnum eftir háspennuleik gegn Haukum

Pétur og Emil Barja í baráttunni í kvöld.  MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur og Emil Barja í baráttunni í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var geggjuð stemning í Síkinu í kvöld þegar Haukar úr Hafnarfirði heimsóttu Tindastólsmenn. Þrátt fyrir að vera að gæla við fallbaráttuna er Haukaliðið mjög gott og þeir komu einbeittir til leiks gegn Stólunum. Eftir að Stólarnir höfðu leitt lengstum í síðari hálfleik voru það gestirnir sem voru nálægt því að ræna stigunum en Stólarnir tryggðu sér framlengingu þar sem þeir reyndust sterkari. Lokatölur 87-82.

Það var augljóst að Tindastólsmenn ætluðu að einbeita sér að því að gera Sherrod Wright erfitt fyrir í sóknarleik Hauka en hann hefur verið þeirra skæðasti maður síðan hann kom í Hafnarfjörðinn. Þetta gekk ágætlega eftir hjá Stólunum en vandamálið var að fyrir vikið fengu Haukur Óskars og Finnur Atli opin skot sem þeim gekk ansi vel að setja niður. Jafnræði var með liðunum fram í miðjan fyrsta leikhluta en þá náðu gestirnir að komast í 10-18. Martin tók leikhlé og Stólarnir jöfnuðu með það sama. Hester skoraði grimmt framan af og gerði 12 stig í fyrsta leikhluta. Bæði lið spiluðu grimma vörn og Breki og Kristinn Jónasson fengu að spila mjög fast á Hester. Að loknum fyrsta leikhluta voru Haukar stigi yfir, 22-23, en Stólarnir voru snöggir að ná frumkvæðinu í öðrum leikhluta. Munurinn yfirleitt þrjú til sex stig og eftir að Hannes Ingi setti niður þrist undir lok annars leikhluta, þá munaði sex stigum. Staðan 43-37 í hálfleik.

Bæði lið voru ísköld í byrjun síðari hálfleiks og þá tók Stólana þrjár mínútur að finna leiðina að körfu Hauka. Og það var karfa í lagi. Hester tók varnarfrákast, brunaði upp völlinn og ákvað síðan að troða rækilega í körfuna og yfir nokkra Hauka. Fullorðnir karlmenn ráku upp öskur og hryglukenndar stunur í stúkunni. Þakið lyftist og stemningin hjá Stólunum alveg klikkuð í framhaldinu. Hester varði skot frá Wright með miklum tilþrifum, Stólarnir brunuðu upp og Pétur fann Caird sem skilaði niður þristi. Pétur bætti við tveimur stigum og staðan skyndilega 50-39. Haukarnir náðu að setja fyrir lekann og náðu að klóra í bakkann. Þristur frá Helga Margeirs kom Stólunum í 58-50 og víti frá Hester og Pálma kom Stólunum ellefu stigum yfir, 61-50. Kristinn setti hinsvegar niður þrist fyrir Hauka rétt áður en þriðji leikhluti kláraðist og gaf gestunum von.

Sóknarleikur Stólanna var þvingaður í byrjun fjórða leikhluta og strákarnir voru að taka vond skot. Á þessum kafla var Martin að hvíla Hester, Caird og Pétur en þeir voru smá  tíma að finna sig á ný. Haukar komust yfir 63-64 og næstu mínútur var lítið skorað og þá helst af vítalínunni, þó hittnin þaðan hafi ekki verið til eftirbreytni. Haukar náðu góðum kafla í stöðunni 67-67 og voru komnir sex stigum yfir, 67-73, þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Stólarnir tóku leikhlé og í næstu sókn setti Pétur niður þrist úr hægra horninu, síðan stal hann boltanum af Finni, brunaði upp völlinn og sendi þvert yfir teiginn á Caird sem skilaði niður þristi af fagmennsku og jafnaði leikinn. Haukur hafði spilað gríðargóða vörn á Caird í leiknum en þarna missti hann af honum. Hann svaraði þó umsvifalaust með því að setja sjálfur niður einn af fimm þristum sínum í leiknum. Caird jafnaði leikinn aftur og staðan 76-76. Bæði lið fengu færi til að klára leikinn en allt kom fyrir ekki og ljóst að framlengja þurfti leikinn.

Wright kom Haukum yfir þegar hann setti annað vítaskotið sitt niður en Hester kom Stólunum yfir. Þá gekk stigataflan af göflunum og dómarar stöðvuðu leikinn eftir að Stólarnir höfðu náð boltanum. Þegar leikurinn hófst loks að nýju, setti Pétur niður þrist, en kappinn hafði hitt illa mest allan leikinn. En ekki þegar máli skipti. Helgi Rafn gerði síðan einu körfu sína í leiknum og Stólarnir voru komnir í bílstjórasætið. Haukar minnkuðu muninn í 85-82 þegar ein og hálf mínúta var eftir en eftir nokkrar mislukkaðar sóknir beggja liða setti Pétur niður tvö vítaskoti og gulltryggði sigur Tindastóls. Lokatölur 87-82.

Sem fyrr segir var þetta mikill hörkuleikur í kvöld og varnarleikurinn var í fyrirrúmi. Hester var öflugur í liði Tindastóls þó Haukar næðu að loka ansi vel á hann þegar á leið. Vítahittni leikmanna Tindastóls var slök í kvöld, undir 60%, og hefði getað reynst liðinu dýrkeypt. Hester gerði 23 stig og tók níu fráköst. Caird skilaði nítján stigum, þar af fimm þristum. Pétur var ólseigur með sex stoðsendingar, átta fráköst, fimm stolna bolta og 17 stig en báðir þristarnir hans voru gulls í gildi. Pétur spilaði sterka vörn á Emil Barja sem komst ekki á blað í kvöld og munar um minna. Þá var Björgvin með ellefu stig og sjö fráköst en hann spilaði sömuleiðis flotta vörn á Wright í kvöld. 

Í kjölfar sigursins er ljóst að lið Tindastóls er í efsta sæti Dominos-deildarinnar að lokinni fyrri umferð, strákarnir eru með 18 stig, líkt og Stjarnan sem sigraði KR í kvöld. Stólarnir unnu hinsvegar Stjörnuna í Garðabæ fyrr í vetur og eru því efstir miðað við innbirðis viðureignir liðanna. Fyrsti leikur á nýju ári verður í Síkinu en þá mæta Íslandsmeistarar KR í Síkið. Úha!

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir