Tíminn breytir draumum og ævintýrum í veruleika - Áskorandapenni Jón Gíslason Stóra-Búrfelli

Ásmundur frændi minn í Grænuhlíð henti á mig áskorandapennanum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort sumt sé ákveðið fyrir fram í lífi manns. Mig langar til að segja frá tveimur atriðum sem tengjast mínu lifi sem benda í þá átt.

Faðir minn Gísli H. Jónsson var alinn upp á Ásum í Svínavatnshreppi frá 6 ára aldri en þangað flutti hann með foreldrum sínum frá Syðri – Löngumýri í Blöndudal þar sem hann fæddist 1912. Ásar eru austan við hálsinn sem Stóra- Búrfell stendur vestan við.

Þegar hann er um 10 ára aldur dreymir hann mjög sérstakan draum sem hann mundi æ síðan og rifjaðist upp síðar í lífi hans.

Á þessum tíma í kringum 1920 gerðu börn ekki víðreist fram yfir 10 ára aldur og hafði hann þá aldrei séð hér vestur fyrir hálsinn, hvorki hvernig hagaði til á Stóra – Búrfelli eða hér við Svínavatnið.

Í draumnum fannst honum hann vera einn og rammvilltur og allt mjög ókennilegt þar sem hann var staddur. Þegar hann hafði labbað nokkuð lengi, án þess að vita hvert stefnir, kemur hann, að honum finnst, að mikilli glerhöll, undir hárri fjallsnibbu, eins og í ævitýrasögunum  sem honum höfðu verið sagðar.

Slíkt hús hafðu hann að sjálfsögðu aldrei augum litið og lítið séð af byggingum öðrum en torfbæinn þeirra heima og öðrum slíkum sem blöstu við í Langadalnum frá Ásum.

Þegar hann er að virða þetta undur fyrir sér finnst honum koma út forkunnarfögur álfkona (líka úr ævintýrunum) sem spyr hann hvað honum sé á höndum. Hann verðu nú heldur uppburðalítill og segist vera villtur og ekki rata heim.

Tekur álfkonan hann þá við hönd sér og bendir honum þvert yfir dalinn þar sem að við blasir bær undri hárri brekku og þar fyrir ofan er stórt og mikið stuðlabergsfell. Segir svo við hann þetta er allt í lagi góði minn núna ratar þú heim til þín, því að þarna áttu heima.

Draumurinn varð ekki lengri en bærinn og glerhöllin festust þeim stutta vel í minni þar til síðar.

Þegar pabbi fór svo að skjóta sér í heimsætunni Ingibjörgu á Stóra – Búrfelli og tók síðar við búinu þar, áttaði hann sig á því að þarna var draumabærinn ljóslifandi kominn, undir Búrfellinu og Búrfellsbrekkunni, séð frá Reykjanibbunni hinum megin við Svínavatnið.

Laust fyrir 1970 eða 50 árum eftir barnsdrauminn er svo risin glerhöllin góða, Húnavallaskóli undir Reykjanibbunni, með sínum stóru glergluggum sem 10 ára barn um 1920 fannst að vonum líkst glerhöll í samanburði við torfbæina í sveitinni.

Faðir minn var sérlega minnugur svo eftir var tekið og gat munað landslag og staðhætti sæi hann það einu sinni í svip, varð hann því mjög undrandi þegar að hann áttaði sig á því að Húnavallaskóli, undir Reykjanibbunni og sjónahornið þaðan séð til Stóra – Búrfells, var nákvæmlega eins og glerhöllin sem hann hafði séð í draumnum.

 

Annað atvik í mínu eigin lífi fékk mig til að leiða hugann að forlagatrúnni. Þegar Kristjana Stefanía Jóhannesdóttir, sem síðar varð einkona mín, var um fermingu spáði vinur foreldra hennar, Gunnar Haraldsson á Sauðárkróki, fyrir henni að hún myndi búa í sveit, eignast góðan og lágvaxinn mann, eignast þrjú börn, þrjá drengi, en svo þagnar Gunnar og verður afar hugsi dágóða stund, þá spyr hún hann hvað sé að, eftir litla stund segir Gunnar: „Nei, eitt þeirra verður stúlka“.

Hún rifjaði þetta stundum upp eftir að við vorum gift og taldi að Gunnar hefði aldrei farið með fleipur í sínum framtíðarspám um fólk.

Þegar tímar liðu höfðum við eignast þrjá drengi, Þröst Gísla, Val Stefán og Örn Smára, leit þá út fyrir að Gunnar heitinn hefði eitthvað aðeins mislesið sig að þessu sinni.

Ekki voru öll kurl komin til grafar því að þegar að Valur Stefán er kominn í framhaldskóla á Akureyri kemur hann heim jólafrí 18 ára gamall og segir okkur foreldrum sínum að hann sé trans manneskja og hafi ákveðið að láta leiðrétta kyn sitt eins fljótt og mögulegt sé.

Hann lét ekki sitja við orðin tóm heldur byrjaði í  leiðréttingarferlinu þá um veturinn, tveimur  og hálfu ári síðar var leiðréttingarferlinu lokið og höfðum við eins og í ævintýri eignast  gullfallega stúlku sem ber nafnið Ugla Stefanía og hefur síðan lagt mikið að mörkum með baráttu sinni í málum transfólks. Gunnar vissi hvað hann söng, hvernig svo sem það má nú vera.

Þetta ævintýri okkar hjóna og hennar Uglu okkar hefði ekki getað gerst í barnsævintýrunum hans pabba vegna þess að þá var einfaldlega ekki vitað að þetta væri hægt, ekki einu sinni í ævintýrum, en þau geta líka breyst með tímanum.

 

Skora ég á skólasystur mína Birgittu Hrönn Halldórsdóttur, úr drauma glerhöllinni á Húnavöllum, að vera næsti áskorendapenni.

Áður birst í 21. tbl Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir