Tímamóta bæjarstjórn
Það kveður við nýjan sáttartón í bæjarstjórn Blönduósbæjar en óhætt er að fullyrða að ný bæjarstjórn sem mynduð var í gærkvöldi sé tímamótameirihluti. Eftir að bankakreppan skall á í haust þjöppuðu bæjarfulltrúar sig saman og unnu saman að gerð fjárhagsáætlunar. Nú er samvinnan orðin algjör með sameiningu minni og meirihluta. Eftir stendur ein í minnihluta Jóna Fanney Friðriksdóttir sem jafnframt er eina konan í bæjarstjórn.
Húni tók í gærkvöld saman helstu atriði úr nýjum málefnasamningi meirihlutans
Aðilar eru sammála um að standa vörð um fjárhagsstöðu Blönduósbæjar og gæta þess að ekki komi til ónauðsynlegrar skuldasöfnunar. Gætt verði aðhalds í rekstri og leitað nýrra leiða til hagræðingar eftir því sem kostur er. Skipuð verði 3ja manna jafnréttisnefnd sem fer með jafnréttismál sem hafa verið í höndum bæjarráðs.
Unnið verði markvisst að uppbyggingu i atvinnumálum undir forustu bæjarráðs og með þátttöku fyrirtækja á svæðinu. Komið verði á nýrri atvinnustarfssemi á Blönduósi og uppbyggingu nýrra starfa í samvinnu og samstarfi við opinbera aðila og önnur sveitarfélög á svæðinu. Leitað verði leiða til að bæta aðstöðu til fjarnáms og er sérstaklega horft til þess í tengslum við uppbyggingu háskólanáms og þekkingarseturs í Kvennaskólanum.
Áfram verði unnið að því að skoða kosti þess að taka yfir rekstur HSB og auka þjónustuþætti stofnunarinnar s.s. með dagvist aldaðra. Áhersla verður lögð á að ljúka gerð aðalskipulags sem er í vinnslu, fjölgað verði í skipulags,- byggingar og veitunefnd í 5 fulltrúa. Framkvæmdum við sundlaugina verði haldið áfram með það markmið að hún verði tekin í notkun 2010. Skoðaðir verði kosti þess að semja við heimaaðila um að ljúka við frágang húsanna en beðið með búnað og flísalagnir þangað til hægt sé að tryggja fjármögnun þeirra og hagstæðari gengisþróun en verið hefur á síðustu mánuðum.
Lögð verði áhersla á að standa vörð um grunnþjónustu íbúanna og að gjaldtaka vegna hennar sé stillt í hóf. Valgarður Hilmarsson fulltrúi E-lista verður áfram forseti bæjarstjórnar en D-listi og Á-listi skipta með sér formennsku í bæjarráði. Nokkuð verður um breytingar í nefndum en jafnræðis skal gætt í nefndum og skulu öll framboð eiga 1 fulltrúa í 3ja manna nefndum en í stærri nefndum skal almenna reglan vera sú að E og D skipi 2 fulltrúa en Á 1 fulltrúa.
Samkvæmt þessu hefur minnihlutinn verið útilokaður frá nefndarsetum á vegum bæjarins.
Arnar Þór Sævarsson verður áfram bæjarstjóri.
MYND: Auðunn Steinn Sigurðsson, Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.