Til hamingju Tindastóll!
Lið Tindastóls lék í dag við Árborg en um var að ræða toppslaginn í 4. deild. Eitt stig dugði til en það fór vel á því að eina mark leiksins gerði þjálfarinn okkar frábæri, Dominick Furness, og það á sjálfri markamínútunni – þeirri 43. Í leikslok lyftu Stólarnir því bikarnum fyrir sigur í 4. deild og fögnuðu innilega með stuðningsmönnum liðstins. Til hamingju Tindastóll!
Báðum liðum hafði gengið afar vel í síðari umferð 4. deildar en engu liði þó betur en Stólunum sem unnu nú áttunda leik sinn í röð og á einn leik eftir sem fram fer á Ásvölumm í Hafnarfirði gegn liði KÁ um næstu helgi.
Leikurinn skipti lið Árborgar miklu máli og því var um hörkuleik að ræða. Árborg og Ýmir berjast um að fylgja liði Tindastóls upp um deild og tap Árborgar í dag nýttu Kópavogspiltar sér, unnu lið KFS í Eyjum og skutust upp í annað sætið. Það verður því spenna í síðustu umferð; hvaða lið nær í annað sætið og hvaða lið fellur með RB.
Sumarið hjá liði Tindastóls hefur verið frábært, aðeins tapað einum leik og er nú með 40 stig eftir 17 leiki. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.