Tifar tímans hjól - gagnrýni
Leikfélag Sauðárkróks frumsýndi við upphaf Sæluviku síðasta sunnudag leikritið, Tifar tímans hjól. Um er að ræða frumsamið verk eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson og Árna Gunnarson en leikstjórn var í höndum hins fyrrnefnda.
Leikritið er byggt á tónlist Geirmundar Valtýssonar en sagan segir frá ungum manni sem á sér þann draum heitastan að verða frægur tónlistarmaður. Áhorfandi fær að kynnast skrautlegri fölskyldu hans, fólkinu í smábænum sem hann elst upp í og fjölda fjölskrúðugra karaktera sem hann kynnist á lífsleiðinni (en hætt er við að gamlir Króksarar og nærsveitarfólk sjái þar kunnuglega takta og tilsvör við og við). Að auki fá áhorfendur að fylgjast með honum upplifa ást, sorg, gleði og vonbrigði.
Uppselt var á frumsýningarkvöld og stemmningin mjög góð í salnum þar sem áhorfendur klöppuðu við lög Geirmundar. Sýningin er þrælfyndin á köflum og var mikið hlegið en svo mátti einnig heyra snökt úr salnum við dramatískari atriði.
Verkið er stórt og metnaðarfullt og í raun stórkostlegt að áhugamannaleikfélag í ekki stærra samfélagi skuli hafa bolmagn til að setja á svið verk af þessari stærðargráðu, en yfir 60 manns standa að sýningunni, þar af um 30 manns sem stíga á svið. Leikstjóri á hrós skilið fyrir að ná að halda utan um og leikstýra svo umfangsmiklu verki. Hvergi var að finna veikan hlekk og stóðu leikararnir allir vel undir sínum hlutverkum. Loks verður að hæla hljómsveitinni sem spilar lög Geirmundar listavel.
Bravo og takk fyrir mig!
Meðfylgjandi eru nokkrar myndirn frá frumsýningarkvöldinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.