Þvílíkur hvalreki :: Leiðari Feykis

Hvalreki í fjörunni á Bessastöðum í Húnaþingi vestra. Mynd: Guðný Helga Björnsdóttir.
Hvalreki í fjörunni á Bessastöðum í Húnaþingi vestra. Mynd: Guðný Helga Björnsdóttir.

Eins og fram kemur á forsíðu Feykis þessa vikuna rak stærðarinnar hval upp í fjöru í landi Bessastaða í Húnaþingi vestra. Í orðabókum er hvalreki m.a. skilgreindur sem óvænt stórhapp en eins og flestir vita var litið á hvalreka sem mikinn happafeng á öldum áður og dæmi um að slíkt hafi bjargað fjölda fólks frá hungurdauða.

Til að koma í veg fyrir algjöran glundroða þegar eitthvað nýtilegt rak á land voru að sjálfsögðu sett lög um hvalreka líkt og annan reka. Í Jónsbók eru alls 13 lagabálkar og einn þeirra, Rekabálkur, er veglegur og fjallar að sjálfsögðu um reka. Þar segir m.a.: „Hverr maðr á reka allan fyrir sínu landi viðar ok hvala, sela ok fiska, fugla ok þara, nema með lögum sé frá komit. Ef við rekr á fjöru manns, þá skal hann marka viðarmarki sínu, því er hann hefir sýnt áðr grönnum sínum …“

Alls eru kapítularnir ellefu í Rekabálki Jónsbókar og flestir þeirra koma inn á hvalrekann frá ýmsum hliðum hans m.t.t. hagsmuna allra þeirra sem telja sig eiga hlut í rekanum og gætu nýtt sér á einhvern hátt.

Í dag er hvalreki ekki fagnaðarefni landeigenda enda hvalurinn ekki nýttur að nokkru leyti nema ef vera skyldi að tennur eða skíði séu hirt. Hvalinn þarf að losna við úr fjörunni til að koma í veg fyrir mengun af ýmsu tagi og hefur stundum verið fullyrt að það sé gert á kostnað landeigenda þar sem hann eigi það sem rekur á hans fjörur.

Árið 2005 undirrituðu sex opinberar stofnanir verklagsreglur sem fara skal eftir þegar hvali rekur á land enda hafa þær aðkomu að þess konar viðburðum. Þessar reglur eru ansi ítarlegar og skráðar á 23 síður sem hægt er að finna m.a. á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

„Þegar dauðan hval rekur á land má ekki nýta kjötið heldur verður að farga því á viðurkenndan hátt, þ.e. ef slíkt er talið nauðsynlegt, æskilegt eða framkvæmanlegt. Almennt gildir að allt sem rekur á land fellur í hlut viðkomandi landeiganda, sbr. rekaviður netadræsur og allskyns rusl sem rekur á fjörur víða um land,“ segir í ritinu.

Einnig segir að þar sem hvalreki sé ekki úrgangur í skilningi reglugerðarinnar og landeigandi því ekki úrgangshafi, hafi hann ekki hirt neitt úr hræinu, megi álykta að þá sé ekki unnt að þvinga landeiganda til að fjarlægja hvalreka á sinn kostnað, „… þannig að opinberir aðilar þurfa að koma að máli þegar nauðsynlegt eða æskilegt er talið að dýrið verði fjarlægt eða urðað á staðnum. Ennfremur má álykta að urðun á staðnum sé heimil án starfsleyfis enda ekki um úrgang að ræða.“

Í því ljósi má álykta að þessar verklagsreglur séu alger hvalreki fyrir landeigendur svo framarlega sem þeir nýta ekkert af hvalnum.

Góðar stundir.
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir