Þrymur tók utandeildarbikarinn
Íþróttafélagið og upprennandi körfuboltastórveldi, Þrymur, sem er eingöngu skipað Skagfirskum sveinum unnu lið Boot Camp í úrslitaleik utandeildar Breiðabliks í körfubolta. Leikurinn endaði 45-44, eftir framlengingu og var æsispennandi eins og tölurnar gefa til kynna og boðið var upp á frábæran leik þar sem ekkert var gefið eftir.
Þrymur skoraði fyrstu tvær körfur leiksins en eftir það tóku leikmenn Boot Camp öll völd og héldu forystu sinni allan leikinn. Þegar staðan var 37-29 Boot Camp í vil og stutt til leiksloka, breyttu Þrymsmenn varnarleik sínum og náðu að saxa forskotið niður og jafna 39-39 sem voru lokatölur venjulegs leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar.
Í framlengingunni héldu Boot Camp menn áfram að leiða leikinn og það var ekki fyrr en með ótrúlegu vinstri handar sniðskoti Gunnars Andréssonar frá Tungu þegar 30 sek. voru eftir sem Þrymsmenn komust yfir í fyrsta skipti frá því í byrjun leiks, 45-44. Síðustu andartök leiksins fóru fram á vítalínunni án þess að boltinn færi niður í körfuna og leikmenn Þryms og þeir fjölmörgu aðdáendur sem höfðu komið til að fylgjast með, fögnuðu ógurlega þegar flautan gall.
Lið Boot Camp skartar einnig Skagfirðing en þar er söngfuglinn og tölvuleikjanördinn Sverrir Bergmann innan borðs, en hann mátti gera sér að góðu að þiggja silfrið að þessu sinni.
Í fyrra vann Þrymur Molda-Gnúp í úrslitaleik og eru því meistarar undanfarna tveggja ára í Utandeildinni en hún hófst með riðlakeppni í nóvember.
Aðstandendum Þryms langar að þakka þeim fjölmörgu sem komu að fylgjast með leikjum liðsins í vetur og þá sem hafa stutt við bakið á liðinu með hvatningarorðum og hlýjum hugsunum. Þá fá yngri flokka þjálfarar Tindastóls sérstakt hrós fyrir að hafa ekki gefist upp á að kenna Gunna í Tungu vinstri handar sniðskot í gamla daga. Það borgaði sig svo um munar í leiknum á föstudaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.