Þróttarar með allt á hornum sér
„Við vorum sterkari í þessum leik heldur en Þróttur. Báðir þjàlfarar voru sammála því að betra liðið tapaði í dag. Svoleiðis er það stundum. Mér finnst það því miður of oft hafa verið reyndin hjá okkur í sumar sérstaklega á heimavelli. Þróttarar eru samt klárlega góðar en mér finnst við bara betri en bara ólánsamari hreinlega.“ sagði Donni þjálfari Stólastúlkna að loknum leik Tindastóls og Þróttar í Bestu deild kvenna í gær. Gestirnir höfðu öll stigin á brott með sér en Þróttarar unnu leikinn 1-2 eftir að hafa lent undir.
Varnarleikur liðanna var góður í leiknum og gáfu fá færi á sér. Markalaust var í hálfleik en það dró til tíðinda á 64. mínútu þegar brotið var á Jordyn í vítateig gestanna. Dómarinn dæmdi víti og úr því skoraði Jordyn sjálf en þetta var tíunda mark hennar í Bestu deildinni og aðeins Sandra María sem hefur skorað fleiri mörk. Jordyn hafði komið Stólastúlkum yfir gegn Þrótti í fyrri leik liðanna í sumar en þær röndóttu svöruðu fyrir sig, unnu leikinn 4-2 og gerðu þá þrjú mörk úr föstum leikatriðum. Því miður endurtók sá leikur sig í gærkvöldi. Aðeins fjórum mínútum eftir að Stólastúlkur náðu forystunni jafnaði varnarjaxlinn Sóley María Steinarsdóttir eftir hornspyrnu og á 83. mínútu gerði María Eva Eyjólfsdóttir sigurmarkið eftir hornspyrnu. Þá nýttu gestirnir sér það vel að Bryndís Rut fyrirliði var utan vallar vegna höfuðmeiðsla og vörn Stólastúlkna vei fyrir vikið. Heimastúlkur reyndu að sækja jöfnunarmark en gestirnir gáfu engin færi á sér og því fór sem fór.
Þarf að laga bæði sókn og vörn
„Ég var að mestu sáttur við spilamennskuna heilt yfir,“ sagði Donni eftir leik, aðurður hvort hann hafi verið sáttur við leik Tindastóls og hvort liðið ætti meira inni. „Við sköpuðum margar góðar stöður í dag án þess þó endilega að skapa mörg dauðafæri. Stelpurnar gáfu allt í þetta og reyndu sitt besta og ég var mjög ánægður með framlagið heilt yfir. Við hefðum klárlega getað gert betur í þessum góðu stöðum og föstu leikatriðunum. Auk þess sem að venju gegn Þrótti að verjast föstum leikatriðum.“
Þróttarar hafa gert fimm mörk gegn okkur úr föstum leikatriðum í sumar. Eru þær svona snjallar eða við klaufar? „Ég get illa útskýrt þessi föstu leikatriði gegn Þrótti, því miður. Þær eru vissulega góðar þar en við eigum að geta gert betur í báðum þessum atriðum. Gerðum vel þar í fyrri hálfleik og vorum glöð með okkur. En því miður klikkaði dekkningin í fyrra markinu og svo í seinna erum við einum færri inná því Bryndîs var í aðhlynningu vegna höfuðhöggs og boltinn datt auðvitað akkúrat á lausan leikmann í skotfæri. “
Úrslitin hafa ekki fallið með okkur að undanförnu. Hvað þarf að koma til svo sigrar fari að detta í hús á ný? „Við þurfum að koma okkur oftar í hættulegri færi, koma boltanum oftar inn í vítateig andstæðingana og vera skarpari og ákveðnari þar. Auk þess verður varnarleikurinn að vera betri heilt yfir bæði í föstum leikatriðum og opnum leik. Við erum buin að fá alltof mörg mörk á okkur og þar þarf að byrja að stoppa í betur. Þetta smellur hjá okkur, ég hef fulla trú á liðinu,“ sagði Donni, alltaf jákvæður og bjartsýnn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.