Þriðji sigurinn í röð í Lengjubikarnum
Stólastúlkur spiluðu síðasta leik sinn í Lengjubikarnum í dag þegar þær sóttu lið Keflavíkur heim í Nettóhöllina. Bæði liðin verða með í slagnum í Bestu deild kvenna í sumar og undirbúningur fyrir mótið á síðustu metrunum. Lið Tindastóls gerði sér lítið fyrir í Keflavíkinni og fór með sigur af hólmi, lokastaðan 1-3.
Stólastúlkur fóru ekki vel af stað í Lengjubikarnum sem fór í gang snemma í febrúar. Markatalan eftir fyrstu tvo leikina var 0-14 eftir tapleiki gegn Stjörnunni og Breiðablik. Reyndar átti lið Tindastóls að spila fyrsta leikinn í keppninni við lið Keflavíkur en leiknum var frestað vegna ófærðar og var því loks spilaður í dag.
Í millitíðinni höfðu Stólastúlkur haft betur í viðureignum sínum við ÍBV en sá leikur fór 3-0 og síðan lögðu þær lið Aftureldingar 2-0 í snjóboltaleik á Króknum um síðustu helgi.
Það var Murr sem kom liði Tindastóls yfir á 37. mínútu í Nettóhöllinni í dag og staðan 0-1 í hálfleik. Rakel Sjöfn bætti við marki á 59. mínútu áður en Linli Tu minnkaði muninn mínútu síðar en hún varð markahæst í 1. deild kvenna í fyrra og lék þá með liði Austfirðinga. Murr sá hins vegar til þess að lið Tindastóls hirti stigin þrjú en hún gerði þriðja mark Stólastúlkna á 79. mínútu.
Eftir erfiða byrjun í Lengjubikarnum unnust því þrír síðustu leikirnir og níu stig í húsi sem verður að teljast fínn árangur. Stelpurnar halda nú áfram að gera sig klárar fyrir Bestu deildina og liggur nú leiðin í æfingabúðir á Spáni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.