Þórður Guðjónsson býður Sjálfstæðisflokknum krafta sína
“Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til væntalegs þingmannssætis hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi. Í dag eru þrír þingmenn fyrir kjördæmið og því gef ég kost á mér í eitt af þremur efstu sætum listans,” segir Þórður Guðjónsson knattspyrnumaður í samtali við Skessuhorn.
Þórður tilkynnti félögum sínum í Sjálfstæðisfélagi Akraness þessa ákvörðun sína á fundi sl. þriðjudag. “Ég tilkynnti þeim að aðilar innan flokksins hafi komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða fram krafta mína. Ég fór í framhaldinu yfir málið með mínum nánustu og ákvað í kjölfarið að hella mér í þetta,” segir Þórður.
Þórður Guðjónsson er 35 ára, giftur og þriggja barna faðir. Hann var um árabil atvinnumaður í knattspyrnu og segist lítið hafa komið nálægt íslenskri pólitík áður enda hafi hann búið erlendis í 13 ár. “Síðan ég flutti heim árið 2006 hef ég beitt mér í ýmsum verkefnum meðal annars í skólamálum á Akranesi. Mín helstu baráttumál verða velferðar- og fjölskyldumál, svo sem atvinnu-, mennta- og heilbrigðismál.” Þórður segir að Íslendingar séu nú að upplifa tíma sem flest yngra fólk hafi ekki þekkt áður.
“Það er að verða uppstokkun í þjóðfélaginu. Burtséð frá fyrri störfum alþingismanna, þá hefur almenningur ekki endilega verið að kalla eftir áframhaldandi þátttöku þeirra að undanförnu. Nýliðun er því nauðsynleg í pólitík, í það minnsta í bland við reynslufólkið. Ég tel það gríðarlega mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að það verði prófkjör í öllum kjördæmum þar sem trúverðugleiki flokksins hefur orðið fyrir skakkaföllum. Því er nauðynlegt að öllum standi það til boða að bjóða fram krafta sína. Prófkjör er því í mínum huga lykilatriði. En framboð mitt er með öllu óháð því hvað sitjandi þingmenn hyggjast gera,” sagði Þórður Guðjónsson að lokum.
Því má við þetta bæta að fundur verður í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi næstkomandi laugardag í Borgarnesi. Þá mun verða tekin ákvörðun um aðferðafræði við val á lista flokksins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.