Þingmaður í kasti
Sigrún Gróa Gunnsteins hringdi í Dreifarann snemma á mánudagsmorgni og það er óhætt að segja að hún hafi haft eitt og annað á hornum sér. Sigrún Gróa vann við skrifstofustörf síðustu árin úti á vinnumarkaðnum en var áður verkstjóri í Vinnuskólanum. „Það var nú meira letiliðið í þessum Vinnuskóla,“ segir Gróa og bætir við: „Þessir krakkar halda allir að þeir hafi fæðst með silfurskeið í hendinni. Þetta var ekki svona þegar ég var að alast upp.“
„Og hvernig er eiginlega með þessa þingmenn!?“ spyr Gróa.
„Nú veit ég ekki,“ svarar Dreifarinn.
„Nei, þú veist auðvitað ekkert um það. Nú er þetta lið búið að hanga yfir engu frá því að það var kosið og hafa þau geta komið sér saman um að mynda meirihluta?
„Nei, það hefur ekki gengið enn.“
„Nei, einmitt. Og þau eru auðvitað á þessum nýju fínu launum við að geta ekki gert neitt, ekki satt!?“
„Jú, ég reikna með því...“
„Já, þau vita hvernig á að blóðmjólka okkur saklausa borgara þessa lands. Þetta er allt sama tóbakkið. Og hvað heldurðu að ég hafi nú frétt um helgina?“
„Ekki hugmynd.“
„Já, þú mátt prenta það – ef þú þá þorir að segja einhverjar fréttir þarna. Ég ætlaði nú að kíkja aðeins út á lífið á laugardagskvöldið en ég var bara vöruð við skal ég segja þér. Og hvað heldurðu að hafi verið í gangi?·
„Ég veit þ...“
„Heyrðu, þá er mér sagt að þessi þingmannstuska okkar sé þarna á öldurhúsi, enda nýbúinn að fá launahækkun, og sé í fýlukasti. Hugsaðu þér!“
„Nei, bíddu nú róleg Gróa. Ég veit allt um þetta...“
„Nú? Er búið að segja þér frá þessu strax?“
„Neinei, ég var á staðnum. Og þingmaðurinn var ekki í neinu fýlukasti, hann var í pílukasti.“
„Í pílukasti?!? Óttalegt barn geturðu verið. Ég þekki nú minn mann. Og mér var sagt að hann væri í fýlukasti, ég veit allt um það. Og ef hann hefur verið í pílukasti þá hefur hann pottþétt líka verið í fýlukasti. Þú þarft ekki að bera svona dellu í mig. Blessaður.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.