Þægileg og fjölbreytt skótíska
Sækið ykkur kaffi og smá súkkulaði, ég ætla að ná mér í gos og hlaup því ég drekk ekki kaffi og finnst súkkulaði ekkert gott. Ég veit, ég er glötuð! En hér er ég á heimavelli og ætti mögulega að geta skorað nokkur mörk. Því ég var verslunarstjóri og seinna meir rekstrarstjóri yfir skóversluninni Focus skór í Kringlunni og sá þar að leiðandi um skóinnkaup í sjö ár og fylgdist mjög vel með öllu sem var að gerast í skótískunni fyrir kvenfólk.
Þegar ég tók við Focus skór var verslunin búin að vera opin í eitt ár og mikið úrval var af strigaskóm, þar á meðal X18 skórnir. Manstu eftir þeim? Nú reka margir ungir einstaklingar upp stór augu og vita ekkert um hvað ég er að tala á meðan margir taka utan um ennið á sér og hugsa, þvílíka tískuslysið. En hvað um það, við getum huggað okkur við það að þetta var þægileg tíska, ekki satt? Eins og tískan er í dag - þægileg, flott og fjölbreytt.
Hvaða strigaskómerki er þitt uppáhalds?
Ég held að öll kvenþjóðin hafi tekið fagnandi á móti strigaskótískunni, sem er reyndar búin að vera í gangi síðan 2011 og byrjaði þá með pompi og prakt með argandi skærum litum. Kannski ekki furða að svona þægileg tíska lifi lengi enda mörg strigaskómerki í dag að gera flotta og góða hluti. Nike virðist samt sem áður standa uppi sem sigurvegari með ótrúlega mikið úrval af flottum týpum og tala nú ekki um litahafið. En það eru margir aðrir flottir framleiðendur sem fylgja fast á eftir hælunum á Nike, meðal annars New Balance, Vans og Converse. Converse hefur, og er, reyndar búið að vera ,,inn“ í mörg ár en þegar maður sér verslanir bjóða afslátt af þeim þá þýðir það bara eitt... ekki eins vinsælt lengur en ekki örvænta þeir verða fljótir inn aftur.
Adidas virðist vera að koma sterkir inn og sjást trendsettarar götunnar klæðast Superstar eða Stan Smith týpunum sem voru reyndar í tísku fyrir mörgum árum síðan, en þeir eru báðir hvítir og aðrir þeirra eru með gúmmítá! Þetta hjómar ekkert rosalega smart í orðum en eru mjög þægilegir og kannski X18 ætti að byrja að framleiða aftur Superstar ,,eftirlíkinguna“ sína.
En jæja, vindum okkur í hausttískuna sem ég ætlaði nú aðallega að ræða um í þessum pistli. Afsakið mig, ég er svo æst að ég er fljót að fara út í allt annað en ég ætlaði mér því ég ELSKA skó. Einu sinni taldi ég alla skóna mína og ég hætti þegar ég var komin upp í 100 og átti þá fullt eftir. Svona VAR að vera skófíkill en ,,það er ekki í boði“ eins og sonur minn segir mörgum sinnum á dag við mig.
Af hverju viljum við ekki klæðast gúmmístígvélum?
,,Mér finnst rigningin góð“ er ein laglína sem sungin er stundum en rigningin fylgir haustinu hér á Íslandi hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Mér finnst samt alveg ótrúlega fyndið að gúmmístigvél hafi ekki náð að festa sig í tískunni hér á landi fyrir mörgum árum síðan. Gæti það hugsanlega verið út af því að okkur var troðið í Viking stígvél þegar við vorum lítil. Yfirleitt mörgum númerum of stór til að geta notað þau lengur en eitt ár og til að geta verið í ullarsokkunum sem amma gaf okkur í jólagjöf í fyrra? Mögulega.
Danir og Bretar hafa hins vegar notað þessa tísku út í ystu æsar og annar hver Dani notast við ,,gúmmarana“ enda gerist ,,lúkkið“ ekki flottara á hjólinu sem er svo mikið notað þar. Hunter stígvélin hafa hins vegar skotið upp kollinum hér á landi og voru fyrst í boði í tískuvöruverslunum fyrir nokkrum árum en hafa, fram að þessu, ekki náð að verða vinsæl hjá hinum almenna borgara, bara hjá trendsetterunum. En hvað segið þið, eigum við ekki að koma út úr skápnum og fá okkur eins og ein gúmmístígvél svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að verða blaut í fæturna á leið í skólann eða vinnuna í haust? Þau þurfa ekki að vera rándýr, það eru til margar flottar eftirlíkingar.
Ef þú þverneitar að fara í gúmmístígvél þá skulum við skoða hvort það sé ekki eitthvað annað í tísku sem hentar þér betur. Ökklaháir skór með grófum sóla í allskonar útfærslum á ,,upper“, þ.e. efri hlutinn á skónum, hefur verið vinsæll í nokkur ár. Þeir henta líka vel í hálkunni, ef þeir eru með réttum sóla og eru gúmmísólarnir besti kosturinn hér á landi. En auðvitað dugar nú lítið annað en að skella heilögu mannbroddunum undir ef þú vilt alls ekki renna á rassinn fyrir framan einhvern í hálkunni í vetur.
Dr. Martens og Timberland skórnir hafa verið vinsælir hjá yngri kynslóðinni á meðan við eldri förum í nettari hermannatýpurnar bæði reimaðir og svo með rennilás að framan. Nettir ökklaskór með rennilás að framan er ,,look“ sem mig hefur langað í frá því ég flutti hingað norður en aldrei látið verða af, kannski gef ég sjálfri mér þannig í jólagjöf.
Stígvél sem ná upp yfir kálfana hafa ekki verið áberandi undanfarin ár en hafa samt sem áður verið í boði í helstu skóverslunum landsins, eins og t.d. í GS skóm. Þar erum við að tala um danska merkið BilliBi sem er með mörg flott klassísk stígvél sem hægt er að fá í öllum víddum um kálfana. En nú tala tískusjeníarnir um að ,,over the knee“ stígvélin séu að koma sterk inn. Ég held ég geti fullyrt að sveitalubbinn ég sé ekki að fara að láta plata mig í eitthvað bull strax. Við skulum nú sjá hvort þetta haldi áfram, ef svo, þá skal ég skoða þetta næsta haust.
Leður eða leðurlíkisskór!
Í Focus skór var ég að vinna meira með leðurlíkisskóna, því þeir eru ódýrari í innkaupum, og hef því mikla reynslu af bæði leðri og leðurlíki. Leðurlíki er ekki jafn slitsterkt en í dag eru framleiðendur farnir að vanda valið á efnunum og eru þau orðin mjög góð. Sjálf hef ég aldrei verið að elta einhver merki eða gæði í skóm, því ég á yfirleitt nokkur pör til að moða úr við allskonar tilefni. Ég kaupi það sem mér þykir flott, hvort sem það er leður eða ekki, því ef farið er rétt með skóna þá geta leðurlíkisskór enst ótrúlega lengi.
Það fyrsta sem þarf að gera þegar þú kaupir þér vetrarskóna er að spreyja þá með vatnsvörn og ef þú ert að nota sama parið mikið, gerðu það reglulega því vörnin eyðist af með tímanum, þetta er eitthvað sem margir klikka á og furða sig svo á því af hverju það sé komin saltrönd á skóna og að þeir séu farnir að leka, „ég sem spreyjaði skóna! Einu sinni.“
Litavalið er ekki upp á marga fiska í búðunum og veit ég nú helstu ástæðuna fyrir því. Þannig er nú mál í vexti að við Íslendingar, eins og ég nefndi í pistlinum í seinustu viku, við veljum alltaf svart og aftur svart. Þó svo að innkaupaaðilar vilji ólmir panta inn liti og lífga uppá búðirnar sínar þá þarf að velja vandlega hvaða týpur fá að vera í litum því flestir birgjar eru með staðlaða stærðarskiptingu í kössunum, sem innkaupaaðilar fá ekki breytt.
Strigaskótískan hefur samt sem áður lífgað vel upp á hillur verslana hingað til og vona ég að hún sé að kenna okkur að það er alveg óhætt að kaupa skó í litum. Ef þig langar í skó í lit, keyptu þér þá aukahlut í stíl og þú verður glæsileg að versla inn í matinn í búðinni.
Úllen dúllen doff kikke lane koff
Það virðist eins og það sé hreinlega allt í tísku núna; Fylltir hælar, þykkir hælar, mjóir hælar, platform, grófir sólar, þunnir sólar, rúnuð- og mjó tá. Fer kannski eftir því eftir hverju þú ert að leita; Vetrar-, hversdags- eða spariskóm. En Támjóir skór hafa reyndar ekki verið áberandi síðustu ár þó að einn og einn spariskór hafi sést í hillum skóbúða, en nú sjást þeir í ökklaháum skóm líka. Ég er ekki viss um að fæturnir á okkur hrópi húrra en þessi tíska virðist alltaf fylgja með útvíðu buxnatískunni sem hefur aðeins verið að ryðja sig til rúms síðustu misseri, en ekki farið á neitt flug, en er möguleiki að það sé að gerast núna? Mig langar allavega í einar þægilegar sem henta mínum vexti því mér þótti þetta klæðileg tíska á sýnum tíma og hef í raun saknað hennar.
Ætli sé þá ekki best að ákveða það hér og nú að taka buxnatískuna fyrir í næsta pistli...
Hér fljóta svo nokkrar myndir með til að þið áttið ykkur á skótískunni í vetur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.