„Það þarf fólk eins og þig, fyrir fólk eins og mig“ :: Áskorandinn Jón Örn Stefánsson Blönduósi
Nú á dögunum tók ég áskorun Ólafs Magnússonar, óðalsbónda á Sveinsstöðum um að rita nokkur orð undir liðnum „Áskorendapenni Feykis“. Það á ekki að vefjast fyrir okkur, ef á annað borð maður getur ákveðið hvað skal skrifa um, því af mörgu er að taka í samfélaginu okkar hér á Norðurlandi vestra.
Fyrst kom Covid einhverra hluta vegna upp í hugann, en nei andskotinn, eigum við ekki að vona að þetta sé að verða búið bara. Auk þess erum við ágætlega skipuð sérfræðingum og náttúrulega ennþá meira af sjálfskipuðum sófasérfræðingum sem geta einbeitt sér að því svo ég sé ekki að bæta í sarpinn.
Snjómokstur er mér ofarlega í huga, ég hef nú keyrt á milli Sauðárkróks og Blönduóss, yfir Þverárfjallið til skóla og vinnu í að verða sjö ár, hjá Dögun rækjuvinnslu, Fisk Seafood og fiskeldisfræðinámi í Háskólanum að Hólum. Á þessu tímabili hef ég vitanlega haft nokkurt tækifæri til að fylgjast með snjómokstri á þessari skemmtilegu leið, sem hefur og er að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga með viðamiklum framkvæmdum sem er vel.
Mig langar að nota tækifærið til að hrósa mokstursmönnunum okkar fyrir frábær vinnubrögð. Ég hef þó nokkurn samanburð af öðrum fjallvegum, enda verið ansi mikið á ferðinni undanfarin ár á öðrum fjallvegum landsins vegna hinna ýmsustu erinda. Og verð að segja að mér hlýnar alltaf örlítið um hjartarætur þegar ég mæti mokstursbílnum, reyni að víkja vel og sýna þeim allt það umburðarlyndi sem til þarf, enda að mæta sannkölluðum konungum þjóðveganna.
Þegar þetta er skrifað er Evrópumótinu í handbolta nýlega lokið, helvítis Danirnir hindruðu okkur í að komast í undanúrslit, en strákarnir okkar stóðu sig frábærlega undir styrkri stjórn Guðmundar okkar Guðmundssonar.
Það er ákveðin rómantík yfir því þegar handboltalandsliðið er að keppa á stórmóti. Í byrjun móts sér maður fyrir sér rólega gæðastund með fjölskyldunni, þar sem allir gleðjast yfir velgengni strákana og taka náttúrulega þátt í þeim skakkaföllum sem á dynja eins og gengur og gerist. En ég verð að segja, að þessi rómantíska glansmynd breytist strax við fyrsta leik.
Það er nú einhvern veginn þannig að eiginkona mín, hin dagfarsprúða og elskulega Þórdís mín er afskaplega kappsöm svo meira sé ekki sagt, og þegar „Strákarnir hennar“ í handboltanum eru að keppa kveður við alveg nýjan tón hjá gömlu.
Þegar upphafsflautið gellur, er hún búin að undirstrika það nokkru sinnum hvað hún er spennt og svo verður hún hreinlega andsetin í sófanum. Maður þorir ekki fyrir sitt litla líf að taka undir með dómaranum ef dæmt er á Ísland og maður óttast nánast um líf sitt í sófanum. Við feðgarnir reynum að halda okkur aðeins til hlés þar til leiktímanum er lokið, þá fellur allt í ljúfa lund og óttablandin virðing fyrir konunni víkur fyrir daglegu amstri. Oft hef ég hugsað hvorum okkar sé meira létt þegar lokaflautið heyrist, mér eða Gumma þjálfara. Áfram Ísland!
Ólafur Magnússon skrifaði í pistli sínum um sameiningarviðræður Blönduóss og Húnavatnshrepps. Það er mér ljúft og skylt að fjalla um þetta málefni, verandi einn af fulltrúum sveitarfélagsins Blönduóss í sameiningarnefndinni. Óli vinur minn er hlynntur sameiningu og nefnir hann til nokkur atriði sem styðja við þá skoðun hans.
Sem fulltrúi í sameiningarnefndinni þá verð ég að hvetja íbúa Blönduóss og Húnavatnshrepps til að kynna sér vel þá valkosti sem eru í stöðunni. Bæði sveitarfélög þurfa á hvoru öðru að halda eins og Óli kemur inn á og sameinuð verðum við sterkari en ella. Hagkvæmniskostirnir með stofnun nýs sveitarfélags eru miklir, svo og tækifærin sem skapast með hagkvæmari rekstri, aukinni fjárfestingargetu, eflingu innviða og svo margt fleira.
Ef af sameiningu verður, þá er það vitanlega í höndum nýrrar sveitastjórnar að ganga þannig frá málum að vel sé, og þegar öllu er á botninn hvolft, er það í hendi hvers og eins íbúa að kjósa eftir sinni eigin sannfæringu, og hlýtur það því að vera á ábyrgð hvers og eins að kynna sér kosti og eða galla við stofnun nýs sveitarfélags.
Og hafandi sagt það, stofnun nýs sveitarfélags, þá erum við ekki að kjósa um yfirtöku, samruna eða sameiningu sem slíka því ef niðurstaða kosninga verður jákvæð verður nýtt sveitarfélag byggt á grunni þessara tveggja.
Ég tek heilshugar undir með Óla vini mínum og segi hiklaust „Já“ við myndun og uppbyggingu nýs sveitarfélags því eins og Óli nefndi í pistlinum, þá getur Blönduós ekki án sveitarinnar verið og sveitin ekki án Blönduóss verið. Eða eins og Rúnni okkar Júll söng um árið „Það þarf fólk eins og þig, fyrir fólk eins og mig“.
Hér við situr, komið að leiðarlokum í pistlinum, og ekki úr vegi að skora á næsta áskoranda.
Ég skora á Guðmund Hauk Jakobsson á Blönduósi að taka við keflinu.
Góðar stundir!
Áður birst í 6. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.