Það rigndi göt á Kormák/Hvöt

Markvörður Kormáks/Hvatar, Uros Djuric, ver vítaspyrnu frá Víðismönnum. SKJÁSKOT AF VEF K/H
Markvörður Kormáks/Hvatar, Uros Djuric, ver vítaspyrnu frá Víðismönnum. SKJÁSKOT AF VEF K/H

Húnvetningar héldu áfram keppni í 3. deildinni í knattspyrnu í gær þrátt fyrir votviðri sem var á mörkum hins leyfilega. Það var spilað í Garðinum og samkvæmt öruggum heimildum af aðdáendasíðu gestanna þá rignir öðruvísi þar en annars staðar – sennilega þá miklu meira og örugglega á ská. Vallaraðstæður voru því ekki hinar bestu en heimamenn virtust pluma sig betur við þessar erfiðu aðstæður og unnu sanngjarnan 3-0 sigur.

Lið Kormáks/Hvatar vann góðan sigur í fyrstu umferð en mættu liði Víðis í gær en þeim Garðsbúum var spáð efsta sætinu í deildinni og því ljóst að Húnvetningar voru að heimsækja erfiðan útivöll – eins og sagan og lýsingar á aðstæðum bera vott um.

Töluverð meiðsli herja á hóp Kormáks/Hvatar og því var hinn 42 ára gamli þjálfari liðsins, Aco, kominn í byrjuarliðið. Í hressilegri lýsingu á bráðskemmtilegri heimasíðu K/H má lesa að leikmenn gestanna hafi allir staðið sig vel en við ramman reip hafi verið að draga og litla hjálp að fá frá dómaranum. Að vísu er bent á að gestaliðið mætti alveg gera minna af því að gefa víti og næla sér í spjöld.

Helgi Þór Jónsson kom heimamönnum í Víði yfir á 40. mínútu en þá brast flóðgarður gestanna. Annað markið leit dagsins ljós á 63. mínútu úr vítaspyrnu og lokahöggið átti Ari Steinn Guðmundsson á 70. mínútu.

Það er því ekkert annað í stöðunni fyrir Húnvetninga en að henda búningum í þurrkarann og mæta fjallbrattir í sólina á Króknum næsta laugardag. Þangað mæta piltarnir í Elliða úr Árbænum sem líkt og Kormákur/Hvöt hafa nælt sér í þrjú stig það sem af er móti. Áfram Kormákur/Hvöt!

- - - - - - 
Heimasíða Kormáks/Hvatar  |  Við vinnum ykkur um síðir, Víðir >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir