„Það er mjög gaman að vera hluti af þessu liði“ segir Gwen Mummert
Það var ljóst fyrir tímabilið í Bestu deildinni að lið Tindastóls yrði að styrkja sig. Augljóslega þurfti að finna markvörð í stað Amber Michel sem ákvað að freista gæfunnar í Bandaríkjunum. Í hennar stað kom Monica Wilhelm og á sama tíma gekk Gwen Mummert til liðs við Stólastúlkur. „Gwen er gríðarlega sterk og fljót, er góð á boltanum, með góðar sendingar og mjög sterk i föstum leikatriðum. Mörg lið voru á höttunum eftir Gwen og mikil ánægja er með að hún hafi valið að koma á Krókinn,“ sagði Donni þjálfari við Feyki þegar þær stöllur voru kynntar til sögunnar.
Það reyndist dýrmætt að fá Gwen til liðs við Tindastól enda hafði Kristrún María Magnúsdóttir, sem steig varla feilspor í vörn Tindastóls sumarið 2022, þá nýlega slitið krossbönd.
Gwen er 24 ára gömul frá Biesenthal, litlum bæ með ríflega 6000 íbúa norðaustur af Berlín, en hún hafði nýlokið tímabili í háskólafótboltanum í Bandaríkjunum þegar Stól-arnir nældu í hana. Hún er yngst fjögurra systkina, Lolu, Jakobs og Louisu, en foreldrar hennar eru Ariane og Erich. Gwen hefur verið traust í vörninni við hliðina á Bryndísi Rut, fyrirliða Stólastúlkna. Feykir hafði samband við Gwen og spurði hana út í líf og tilveru fótboltastelpu á Króknum.
Fyrst var Gwen spurð að því hvar hún hefði byrjað að spila fótbolta, hvort hún hafi strax verið efnileg og hvenær hún hafi farið til Bandaríkjanna. „Ég byrjaði að spila í klúbbnum mínum, SV Biesenthal 90, í bænum sem ég ólst upp í. Ég spilaði með strákum til 12 ára aldurs. Síðan spilaði ég efstu deild í u17-Bundesligunni og síðan eitt ár í 2. Bundesligunni 17 ára.“ Aðspurð segist Gwen hafa verið góð í fótbolta frá unga aldri. Hún fór til Bandaríkjanna árið 2018 og spilaði fyrir háskólann í Louisiana í Lafayette (Mid Major Conference – miðstig í leik á landsvísu) í þrjú ár. „Ég held að ég hafi virkilega byrjað að þroskast og vaxa sem íþróttamaður á tímanum mínum í háskóla. Ég var framherji á mínum unglingaferli en var sett í miðvörðinn fyrsta árið mitt í háskóla og hef spilað í vörninni síðan. Ég færði mig síðan til Mississipi State University árið 2021,“ segir Gwen en sá skóli spilar í bestu deild háskólaboltans.
Hvað varð til þess að þú komst til Íslands að spila fótbolta? „Ég útskrifaðist með BA í sálfræði í desember frá Mississippi State og spilaði síðasta tímabilið mitt í háskóla áður en ég kom hingað. David Romay, markvarðarþjálfari Tindastóls, fékk mig til liðs við sig. Hann þekkti mig frá því í háskólafótbolta og vildi að ég kæmi að spila fyrir liðið. Ég átti svo gott og vinalegt samtal við Donna [þjálfara Tindastóls] í síma. Ég hafði góða tilfinningu fyrir þjálfarateyminu og líkaði áskorunin, að reyna að hjálpa liðinu við að halda sér í efstu deild. Svo á endanum ákvað ég að flytja til Íslands og spila fyrir Tindastól.“
Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands og er þetta fyrsta skiptið sem þú kemur til landsins? „Já, þetta er í fyrsta sinn sem ég kem hingað. Það sem hefur komið mér mest á óvart er líklega róin sem mér finnst allir hér nálgast lífið með,“ segir Gwen og hlær. „Mér finnst eins og hér séu allir á sínum tíma og enginn sé að flýta sér að gera neitt. Og það var gríðarleg andstæða við að koma frá ákafa háskólaíþróttaumhverfisins. Þú ert svo upptekinn sem nemandi eða íþróttamaður og hefur svo mikið að gera á einum degi og marga staði til að vera á. Svo það var mikill munur fyrir mig,“ en bætir við að hún sé nú venjulega frekar róleg í sínu persónulega lífi og finnst gaman að taka sér tíma í að gera hlutina. „Það er oft gert grín að mér fyrir að vera sein eða hæg, þannig að ég held að íslenska aðferðin henti mér ágætlega.“
Hvernig er að vera hluti af Tindastólsliðinu? „Það er sannarlega mjög skemmtilegt og einstakt. Flestar stelpurnar hafa þekkst nánast alla ævi og þjálfararnir eru líka úr bænum þannig að þetta er þéttur hópur. Ferðin okkar til Spánar í vor var frábær og við gerðum mikið saman sem hópur og vorum í alls konar keppnum alla þá viku. Við erum líka með skemmtilegan lista yfir sektir í búningsklefanum okkar sem er partur af því að halda hlut-unum skemmtilegum!“
Hvað finnst þér um fótboltann á Íslandi, er Besta deildin sterkari en þú áttir von á? „Deildin hér er mjög frábrugðin háskólaboltanum að mínu mati. Í SEC, deildinni sem ég spilaði í síðast, reynir leikurinn meira á líkamlega þáttinn, er hraðari og það er meira hlaupið. En í Bestu deildinni get ég sagt að sóknarmenn hafa meiri reynslu. Þeir nýta styrkleika sína sér til framdráttar og taka stundum betri ákvarðanir en leikmenn í háskólaboltanum. Það hjálpar mér að vaxa sem varnarmaður að verjast sóknarmönnum sem hafa reynslu af því að spila sem atvinnumenn og eru jafnvel í íslenska landsliðinu.“
Hvaða liðsfélaga þinn heldurðu mest upp á eða er skemmtilegastur? „Donni er líklega einn sá fyndnasti að mínu mati. Ég hlæ yfirleitt upphátt að minnsta kosti einu sinni á hverjum hópfundi vegna athugasemda sem hann gerir eða einhvers sem hann segir. Hann reynir ekki að fá okkur til að hlæja en stundum ræð ég bara ekki við mig. Bryndís fær mig líka til að hlæja mikið án þess að reyna það og aðrar stelpur í liðinu eru líka fyndnar. Þetta er bara fyndið fólk!“
Hvernig finnst þér íslenski maturinn og er eitthvað sem þér líst ekki á að borða? „Hádegisverðurinn sem við fáum hér er einn besti hluti dagsins fyrir mér og Monica [markvörður] elskar hann líka. Fólkið sem útbýr matinn er frábært og hann er alltaf góður. Hann er mjög líkur þýskum mat þannig að mér líður eins og ég sé heima. Mig langar samt eiginlega ekki að borða hest – en ég gæti hafa borðað hann fyrir slysni...“
Er Murr búin að fara með þig í sýnisferð um landið? „Já, svo sannarlega! Við fórum til dæmis út í Drangey með fjölskyldu hennar og Hönnu og sáum lundann og löbbuðum um eyjuna. Bryndís sýndi mér líka hverinn í heimabænum sínum [Fosslaug!] og fór með mig á bæ til að skoða lömb, folöld og kálfa. Við fórum líka að skoða Goðafoss með hinum útlendingunum í liðinu. Ég elska náttúruna og landslagið hérna. Uppáhaldið mitt var að sjá norðurljósin á gönguferðum mínum heim af æfingu.“
Stólastúlkur fóru til Eyja fyrr í sumar. Hvernig var það? „Ég elskaði ferðina í leikinn gegn ÍBV! Það var klárlega í fyrsta sinn sem ég hef þurft að taka ferju í útileik,“ segir Gwen hlæjandi. „Bærinn er mjög fallegur og eyjarnar líka og þar sá ég lunda í fyrsta skipti.“
Hvað vonir bindurðu við tíma þinn hér á Íslandi? „Ég vonast til að verða betri í fótbolta og hefja atvinnumanna-ferilinn minn. Það er aðalástæðan fyrir því að ég er hér, þannig að ég einbeiti mér að því að bæta mig sem knatt-spyrnumaður og að hjálpa liðinu að halda sér í efstu deild. Og ég elska líka að kynnast landinu og ferðast á sama tíma. Sérstaklega að fara í öll lónin og fossana.“
Hvað er ólíkt með Þýskalandi, Bandaríkjunum og Íslandi? „Það er erfitt að segja. Þau eru öll ólík en samt lík á sinn hátt. Ég myndi segja að Ísland væri örugglega mest „afslappað“ af þessum þremur, hér er ró og friðsæld. Ísland og Þýskaland eru lík menningarlega séð þar sem bæði eru evrópsk. Það sem mér líkaði við Bandaríkin er nautn þeirra fyrir alls kyns íþróttum. Það var mjög gaman að fá að vera hluti af þessum heimi og vera umvafinn sem nemandi/íþróttamaður.“
Hvernig mundir þú lýsa liði Tindastóls og liðsfélögum þínum? „Ég elska stelpurnar, foreldrana og þjálfarateymið. Fólkið er mjög einlægt og eðlilegt og ég nýt þess þegar við gerum eitthvað skemmtilegt saman. Mér finnst vera stór áhersla á það innan hópsins að það eigi að vera gaman. Þannig að það er oft verið að brydda upp á leikjum og keppnum eins og nú fyrr í sumar þegar við fórum á Bakkaflöt og eyddum deginum þar. Það er mjög gaman að vera hluti af þessu liði. Undanfarin ár hef ég verið í umhverfi sem snýst um samkeppni og að taka hlutina alvarlega þannig að þetta er svolítið ný reynsla fyrir mig.“
Því var hvíslað að mér að þú værir að leggja hart að þér við að læra íslenskuna. Er það rétt? „Já, ég er það,“ segir Gwen og hlær. „Ég er viss um að ég er farin að pirra suma íslenska liðsfélaga mína, því ég er alltaf að spyrja hvernig eigi að segja eitthvað eða hvað tiltekið orð þýðir. En ég elska það og ég vildi að ég gæti talað og skilið íslenskuna betur. Þýskan mín hjálpar örugglega við að skilja og muna sum orð betur en framburðurinn er samt mjög erfiður fyrir mig.“
Hvað gerirðu á Króknum annað en að æfa og spila fótbolta. Hvernig er venju-legur dagur hjá þér? „Á morgnana erum ég og nokkrar hinna stelpnanna í liðinu hluti af vallarstarfsmönnum sem sjá um útiaðstöðu félagsins. Ég aðstoða líka við að dæma leiki hjá yngri flokkunum sem mér finnst mjög gaman að gera! Það er gaman að sjá spennuna hjá þeim. Það minnir mig á þegar ég spilaði á þessum aldri og hvers vegna ég spila enn. Fyrir utan það finnst mér gaman að fara í gönguferðir í fjöruna, fara í sundlaugina, hanga með liðsfélögum mínum og gera aukaæfingar ein.“
Hvaða fótboltaleikmann tekurðu þér til fyrirmyndar? „Alexander Arnold er meðal þeirra leikmanna sem hafa veitt mér innblástur á ferlinum. Mér líkar sóknarþátttaka hans sem varnarmaður. Hann heldur líka áfram að verða betri sem leikmaður þrátt fyrir alla gagnrýnina sem hann fær fyrir nokkur varnarmistök. Tækni hans við að gefa bolta er svo góð og hann er mjög yfirvegaður. Fyrir háskólaleikina mína horfði ég á hluta af síðasta leik Liverpool til að hjálpa mér að sjá leikinn fyrir mér.“
Hvað hefur verið erfiðast við að koma til Íslands að spila fótbolta? „Það erfiðasta fyrir mig er að skipta úr háskólaumhverfi yfir í að spila sem atvinnumaður í litlum bæ. Ég hef þurft að verða ábyrgari fyrir eigin framförum sem íþróttamaður vegna þess að við höfum auðvitað ekki sömu úrræði og aðstöðu hér og stór háskóli í Bandaríkjunum býr að. Ég ólst sjálf upp í litlum bæ en það er samt mikil breyting að flytja í lítinn bæ á Norður-Íslandi fjarri fjölskyldu minni og vinum í Þýskalandi og Bandaríkjunum,“ segir Gwen að lokum.
- - - - - -
Myndir úr ýmsum áttum | Viðtalið birtist áður í 31. tölublaði Feykis sem kom út 23. ágúst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.