Telja breytingarnar stefna nærþjónustu í voða

Þingflokkur Vinstri grænna mótmælir harðlega í ályktun sinni fyrirhuguðum breytingum í heilbrigðisþjónustunni. Er það mat þingflokksins að breytingarnar séu hvorki til þess fallnar að styrkja þjónustuna né  auka öryggi hennar auk þess sem þær stefni í  voða nærþjónustu í heimabyggð.
Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna að til lengri tíma litið leiði breytingarnar til þjóðhagslegs sparnaðar. Með breytingunum eru sveitarfélögin þvinguð til að taka yfir nærþjónustuna ellegar verði úr henni dregið. Skipulagsbreytingarnar virðast hafa verið undirbúnar löngu áður en yfirstandandi efnahagskreppa skall á þótt þær séu nú kynntar undir því yfirskini að þær séu óhjákvæmilegar.
Þingflokkur VG mótmælir einnig gerræðislegum vinnubrögðum heilbrigðisráðherra í málinu þar sem ekkert samráð var haft við viðkomandi starfsmenn, stofnanir og sveitarfélög. Þá lýsir þingflokkurinn furðu á því að ekki skuli unnið samkvæmt nýútkomnum leiðbeiningum fjármálaráðuneytisins um sameiningu ríkisstofnana og víðtækt samráð haft við alla aðila áður en farið er í svo umfangsmiklar breytingar. Nefna má sérstaklega vanhugsaðar breytingar á starfsemi St. Jósefsspítala, lokun skurðstofu og sérfræðiþjónustu. Ljóst er að þessi aðgerð er undanfari frekari einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni, sem gengur í berhögg við þarfir og hagsmuni samfélagsins. Þá er með eindæmum hvernig komið er fram við íbúa landsbyggðarinnar þar sem grunnheilbrigðisþjónustu í stórum landshlutum er einhliða sundrað og grafið undan nærþjónustu og sjálfstæði heilbrigðisstofnana í héraði.
Þingflokkur VG mótmælir einnig hækkun sjúklingaskatta,  þ.m.t. nýju innlagnargjaldi á sjúkrahús. Óviðunandi er að ósanngjarnar byrðar, sem þjóðin neyðist nú til að axla vegna mistaka ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, skuli vera lagðar á sjúklinga og aðra notendur heilbrigðisþjónustunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir