Tekist á um ívilnanir til lágvöruverslana
Umræða um lágvöruverslanir á Norðurland vestra hefur verið nokkur að undanförnu. Þannig lagði Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG í skipulagsnefnd Skagafjarðar, fram tillögu um miðjan október þar sem lagt var til að „... sveitarstjórn nýti sér 8. grein úthlutunarreglna Skagafjarðar um vilyrði til að skipuleggja sérstaklega hentuga lóð fyrir lágvöruverslun.“ Í aðsendri grein í Feyki segir Álfhildur að tillagan hafi jafnframt gengið út á að lóðin verði með ívilnunum þar sem felld yrðu niður eða veittur verulegur afsláttur af lóða- og gatnagerðagjöldum en fordæmi væru í sveitarfélaginu fyrir ívilnunum af slíku tagi.
Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu í skipulagsnefnd en málið var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi sl. miðvikudag og skapaðist um það talsverð umræða.
Í bókun sem Jóhanna Ey Harðardóttir lagði fram sagði m.a.: „Við fulltrúar Byggðalistans getum ekki stutt þá tillögu að bjóða lágvöruverslunum ívilnanir þar sem felld verði niður eða veittur verði verulegur afsláttur af lóða- og gatnagerðagjöldum. Við vitum að skipulagsvinna og gatnagerð kostar mikla fjármuni og styðjum við ekki að íbúar Skaga-fjarðar taki þann kostnað á sig.“
Í bókun Gísla Sigurðssonar, Sjálfstæðisflokki, sagði m.a. að það kæmi honum verulega á óvart að VG og óháðir „... skuli fara fram með þessum hætti að vilja sveigja og beygja reglur sveitarfélagsins til að geta veitt stórfyrirtækjum eins Högum, Festi eða öðrum „lágvöruverðsverslunum á Íslandi“, sérstaka og óumbeðna ívilnunarsamninga fyrir fram og festa það sem kvöð á lóðir í deiliskipulagsgerð. Engin fordæmi eru til í Skagafirði um t.d. afslátt af gatnagerðagjöldum til fyrirtækja.“
Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, VG, lét m.a. bóka að röksemdir um að „...ekki megi hygla með ívilnunum með þessum hætti eru kómísk í þessu sveitarfélagi sem sannarlega hyglir með slíkum hætti og hefur gert lengi. Þar má nefna sérsniðna gjaldskrá heita vatnsins þar sem stórt fyrirtæki á svæðinu fær 70% afslátt en svo rausnarlegur afsláttur þekkist ekki í öðrum sveitarfélögum. Sú heitavantsívilnun og það að þessi tillaga til að verða við óskum íbúa sé felld, er ansi afhjúpandi."
Að lokum kvaddi Einar E. Einarsson, Framsókn, sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun: „Meirihluti sveitarstjórnar vill árétta og leiðrétta að það er ekkert í gjaldskrá gatnagerðargjalda Skagafjarðar sem heimilar sjálfkrafa afslátt gatnagerðagjalda. Samkvæmt okkar reglum þarf sá sem óskar afsláttar að sækja um til sveitarstjórnar og verður það þá að afgreiðast sérstaklega með rökstuðningi. Við viljum jafnframt árétta að meirihlutinn myndi fagna komu lágvöruverslana en það verða allir að sitja við sama borð gagnvart reglum sveitarfélagsins."
Forseti bar síðan upp tillögu meirihluta um að tillögu VG yrði hafnað og var það samþykkt með sjö atkvæðum gegn tveimur atkvæðum VG og óháðra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.