Tap í tvíframlengdum leik

Áhorfendur í Síkinu fengu svo sannarlega eitthvað fyrir aurinn þegar ÍR-ingar komu í heimsókn á Krókinn í Iceland-Express deildinni. Tvær framlengingar þurfti til að skera úr um úrslit og Sveinbjörn Claessen kórónaði stórleik sinn og setti niður þriggja stiga skot þegar örfáar sekúndur voru eftir og tryggði gestunum sigur 118-117.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn mun betur og áttu Tindastólsmenn í hinu mesta basli að halda í við þá. Í hálfleik var staðan 49-52, en með góðum varnarleik í þriðja leikhluta náðu heimamenn að jafna leikinn og voru aðeins tveimur stigum undir 72-74 þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst.

Tindastóll var skrefinu á undan í síðasta leikhlutanum en síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Ísak Einarsson kom þeim yfir 97-95 þegar skammt var eftir af leiknum en þegar 0.7 sekúndur lifðu leiks, jafnaði Eiríkur Önundarson leikinn með tveimur vítaskotum og tryggði sínum mönnum framlengingu.

Þegar um 35 sekúndur voru eftir af framlengingunni kom Ómar Sævarsson gestunum yfir 105 - 103 en Ísak Einarsson jafnaði leikinn með tveimur vítaskotum þegar um 20 sekúndur voru eftir. Ekki var meira skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til annarrar framlengingar.

Helgi Rafn Viggósson tók leikinn nánast yfir í seinni framlengingunni, hann skoraði, tók fráköst, stal bolta og fór hreinlega á kostum. Heimamenn voru á þeim tíma með leikinn á góðu róli og þegar um ein og hálf mínúta var eftir var staðan 114 - 110 fyrir Tindastól og 116 - 112 þegar um mínúta var eftir. Sveinbjörn Claessen skoraði þá körfu og fékk víti að auki sem hann nýtti og staðan orðin 116-115 þegar 54 sekúndur voru eftir. Óli Barðdal setti annað víti af tveimur niður þegar um 12 sekúndur voru eftir og staðan 117 - 115. ÍR-ingar bruna í sókn og Sveinbjörn Claessen setti niður þriggja stiga skot þegar um 6 sekúndur voru eftir og tryggði sú karfa sigur þeirra í þessum magnaða leik.

Ísak Einarsson var stigahæstur heimamanna með 29 stig, auk þess að taka þrjú fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. Darrell Flake var með 22 stig og 8 fráköst auk fimm stoðsendinga. Þeir frændur Friðrik Hreinsson og Svavar Birgisson voru með 21 stig hvor, Helgi Freyr Margeirrson sem spilaði á ný með Tindastólsliðinu skoraði 15 stig, Helgi Rafn VIggósson var með 8 stig, 9 frá köst og þrjár stoðsendingar og Óli Barðdal sett niður eitt stig.

Tilkoma Helga Freys í liðið breytti ásýndinni mikið, hann barðist vel í vörninni og virkaði sem mikill leiðtogi á velli. Nafni hans Rafn, gladdi sömuleiðis augu áhorfenda með gríðarlegri baráttu, sérstaklega í seinni framlengingunni.

Hjá ÍR átti Sveinbjörn Claessen stórleik og skoraði 32 stig, Eiríkur Önundarson var með 26, Hreggviður Magnússon 24, Ómar Sævarsson 19 og aðrir minna.

Dómarar leiksins unnu sannarlega fyrir kaupinu sínu í erfiðum leik. Jón Guðmundsson átti ágætan dag en félagi hans Konráð Brynjarsson átti ekki sinn besta dag.

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni

Eftir leikinn er Tindastólsliðið dottið niður í 9. sætið en ÍR-ingar færðust upp í það áttunda. Liðin eru með jafn mörg stig en Tindastóll hefur tapað báðum leikjum sínum gegn ÍR. Tindastóll á leik til góða gegn Njarðvík á heimavelli sem leikinn verður á fimmtudaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir