Talsverð fjölgun gesta milli ára
Greinilega fjölgun gesta er á milli ára hjá Byggðasafni Skagfirðinga, samkvæmt því sem segir á Facebook-síðu Byggðasafnsins. Árið 2015 var tala gesta í Minjahúsi frá áramótum til loka júní 636, á þessu ári eru þeir orðnir 1.339.
Á sama tíma í fyrra voru gestir í Glaumbæ 10.360 en eru nú 12.156. „Fjölgun gesta í Minjahúsinu kemur fyrst og fremst til af því að þar er frítt inn í sumar en sömuleiðis virðast fleiri vera á ferðinni um Sauðárkrók nú en í fyrra,“ segir á síðunni.
Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga hefur hafið uppgröft á kirkjugarðinum í Hegranesi annað árið í röð en rannsóknin er hluti af Skagfirsku kirkju- og byggðasögurannsókninni. Alls eru komnar fram 23 grafir í garðinum auk myndarlegrar kirkju frá byrjun 11. aldar sem reist hefur verið á grunni eldri kirkju/kirkna. Alls vinna sjö manns við uppgröftinn, fimm sérfræðingar og tveir nemar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.