Takk Guðni forseti
Nýtt ár er gengið í garð og deilur um gæði Áramótaskaups Sjónvarpsins fóru nokkuð hraustlega af stað en urðu síðan að láta í minni pokann þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, lýsti því yfir í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki gefa kost á sér í forsetakosningum nú í júní og mun því aðeins sitja í embætti tvö kjörtímabil. Þetta virtist koma landsmönnum talsvert á óvart enda venjan sú að menn dvelji lengur á Bessastöðum.
Guðni hefur verið vinsæll hjá þjóðinni en þeir sem bjuggust við forseta sem væri til í að rugga bátnum við hvert tækifæri og standa upp í hárinu á stjórnvöldum voru væntanlega örlítið skúffaðir. Guðni hefur aftur á móti verið ötull þátttakandi í lífi og starfi þjóðar sinnar í blíðu og stríðu ásamt forsetafrúnni, Elizu Reid, og duglegur að mæta á viðburði af ýmsum toga. Þannig mætti hann til dæmis á leiki í Síkið sem sannarlega var óvænt og eftirminnilegt.
Það mætti kannski segja að þjóðin hafi haft þá tilfinningu að hún ætti vin á Bessastöðum – einhvern sem hafði alltaf tíma til að hlusta og spjalla. Það er fallegt og þakkarvert.
Guðni er forseti til 1. ágúst en nýr forseti verður kosinn í júní. Það verður eflaust spennandi að sjá hverjir munu sækjast eftir að gegna virðulegasta embætti Íslands.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.