Systir Gitzy með gull í Tokyo
Ekki náðu Íslendingar í verðlaun á Ólympíuleikunum í Tokyo og voru ekki nálægt því að þessu sinni. Margir hafa notið þess að fylgjast með fjölbreyttum greinum sem keppt hefur verið í og öllu því ljúfsára drama og þeirri botnlausu gleði sem fylgir þessum stórkostlegu leikum. Með góðum vilja getur Tindastólsfólk samglaðst stúlku frá Dyflinni, Kellie Harrington og fjölskyldu hennar, en Kellie gerði sér lítið fyrir í nótt og nældi í gull í boxi fyrir Íra.
Kellie er fædd árið 1989 og hefur nú um nokkurt skeið verið einn albesti boxari heims í sínum þyngdarflokki og unnið til fjölda verðlauna. Og í nótt var stóra stundin þegar hún mætti Beatriz Ferreira frá Brasilíu í slag um Ólympíugull. Kellie var varkár og skynsöm og hélt kúlinu á meðan Beatriz rembdist eins og rjúpa við staur. Þrátt fyrir að hafa tapað fyrstu lotunni þá varð það niðurstaða allra fimm dómaranna að Kellie hefði unnið bardagann á stigum
Og hvað kemur þetta Tindastólsfólki við? – gæti nú einhver spurt. Jú, bróðir Kellie er hinn eini sanni Christopher Thomas Harrington, kallaður Gitzy, en hann er tveimur árum eldri en Kellie. Hann kom fyrst á Krókinn 2013 og spilaði fjóra leiki fyrir Stólana í 1. deildinni. Gitzy var ekki besti fótboltamaðurinn sem hefur skellt sér í Tindastólstreyjuna en kunnugir segjast sjaldan eða aldrei hafa kynnst manni með jafn ríkan áhuga á knattspyrnu og er þó framboðið all nokkurt af slíkum.
Eftir veruna á Króknum hefur Gitzy spilað en þó að langmestu leyti þjálfað á Íslandi með smá stoppi í Færeyjum. Hann var aðstoðarþjálfari hjá góðvini sínum Stephen Walmsley sem þjálfaði Tindastól sumarið 2017 og náði þá sex leikjum með liði Drangeyjar í fjórðu deildinni, Hann var einnig aðstoðarþjálfari kvennaliðs Tindastóls um tíma og þjálfaði yngri flokka Tindastóls. Hann hefur nú síðustu árin m.a. komið að þjálfun á Ísafirði með Bjarna Jó, á Akureyri með Donna og starfar nú í Reykjavík þar sem hann þjálfar kvennalið Fram í 2. deildinni.
Gitzy er ekki búinn að leggja skóna á hilluna því nú í sumar hefur hann spilað með liði KM í C-riðli 4. deildar. Hann er kominn með tíu leiki á tímabilinu og skoraði sitt fyrsta mark á Íslandi í 6-1 stórsigri KM á liði Álafoss – og reyndar eina sigri KM í sumar.
Kappinn flaug að sjálfsögðu heim til Írlands til að geta horft með fjölskyldu sinni á systurina taka gull. Feykir óskar Gitzy og írsku fjölskyldunni til hamingju með Kellie!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.