Sýndarveruleikinn í Aðalgötunni :: Stóra myndin
Uppbygging atvinnustarfsemi að Aðalgötu 21 í Gránu og aðliggjandi húsum er stórt verkefni, sem Sveitarfélagið Skagafjörður og fyrirtækið Sýndarveruleiki ehf. undir forystu Ingva Jökuls Logasonar réðust sameiginlega í á árunum 2016-2019. Niðurstaðan varð samningur milli þessara aðila um samstarf og fjárfestingar af beggja hálfu. Sveitarfélagið Skagafjörður endurgerði áðurnefnd hús sem voru í niðurníðslu og Sýndarveruleiki ehf. setti á fót á eigin kostnað sýningu í húsinu um Sturlungaöldina þar sem áhersla er á notkun stafrænnar tækni við að miðla sögunni til gesta. Sýningin, sem kallast: 1238, Baráttan um Ísland, opnaði í júní 2019 með viðhöfn.
Allt frá upphafi verkefnisins hefur Sýndarveruleiki ehf. annast rekstur sýningarinnar, greitt laun starfsfólks og greitt allan kostnað við daglegan rekstur fasteignarinnar. Fyrirtækið rekur samhliða sýningunni veitingaþjónustu sem er smá í sniðum, á opnunartíma sýningarinnar, en öll áhersla þar er á að nýta afurðir úr héraði. Þá rekur Sýndarveruleiki litla minjagripabúð í sama húsi þar sem áherslan er á minjagripi sem tengjast víkingaöldinni og Sturlungaöldinni. Á bak við þessa hliðarstarfsemi liggur sú hugmynd að úr verði áningarstaður sem höfði til þeirra sem eru á ferð um landið okkar.
Auk þessa starfa í húsinu á ársgrundvelli, á dagvinnutíma, tveir starfsmenn sveitarfélagsins sem annast upplýsingagjöf til ferðafólks í húsinu, auk þess sem þeir aðstoða í afgreiðslu eftir aðstæðum. Þegar þeirra nýtur ekki við annast starfsfólk Sýndarveruleika upplýsingagjöf og önnur störf. Engir peningar koma frá Sveitarfélaginu Skagafirði inn í rekstur Sýndarveruleika og sveitarfélagið ber engan beinan kostnað af daglegum rekstri í Aðalgötu 21. Allt er þetta í samræmi við áðurnefndan samning.
Hagræn áhrif
Um er að ræða stórhuga verkefni á skagfirskan mælikvarða og reyndar á mælikvarða ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Heildarkostnaður sveitarfélagsins við endurgerð húsnæðisins munu vera yfir 300 milljónir, en þeir eru bundnir í húsnæðinu og hefðu þurft að koma til, nánast óháð því hvaða starfsemi hefði farið þar inn.
Húsnæðið er 100% í eigu sveitarfélagsins og verður um ókomna tíð. Ívilnanir sveitarfélagsins, s.s. hagstæður húsaleigusamningur og samnýting starfsfólks skiptu verulegu máli til að dæmið geti gengið upp og ánægjulegt að sjá opinbera aðila hér beita ívilnunum til að laða að fjárfestingu í ferðaþjónustu og þar með ferðamenn, en slíkum ívilnunum hefur lengi verið beitt víða um land til að laða að iðnað. Á móti hafa fjárfestar sett eigið fé í verkefnið sem nemur ríflega 350 milljónum króna. Verkefnið hefur jafnframt stuðlað að fjárfestingu í Skagafirði en góður hluti þessa fjármagns varð eftir hér í héraði í formi aðkeyptrar vinnu og efnis. Hagræn áhrif þessa verkefnis á svæðinu eru því þegar orðin mikil.
Erfiðum ytri aðstæðum snúið upp í tækifæri
Eins og allir vita hefur rekstur í ferðaþjónustu sennilega aldrei fengið annan eins skell á heimsvísu og síðustu tvö ár. Fyrsti veturinn hér í Aðalgötunni var erfiður vegna óveðurs og ófærðar, fall Wow Air árið 2019 var áfall fyrir ferðaþjónustuna og í mars 2020 þegar þrotlaust markaðsstarf var loksins að skila árangri og hópabókanir voru orðnar verulegar skall Covid 19 á. Segja má að allar áætlanir fyrirtækisins hafi farið út um gluggann og þrátt fyrir ágætar horfur á komandi mánuðum er enn langt í land.
Til að bregðast við þessum áföllum snerum við rekstrinum meira í átt að nýsköpun og þróunarstarfi á sviði stafrænnar miðlunar á menningararfinum. Við höfum frá upphafi Covid unnið sleitulaust að þróun lausna á borð við stafræna bók sem er komin inn á sýninguna okkar, stafræna leiðsögn sem mun birtast hjá okkur innan tíðar og svo mætti áfram telja. Með öflugum stuðningi Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra, stuðningi úr Menningarsjóði KS og samstarfi við önnur söfn og sýningar, grunnskóla á svæðinu, Háskólann í Reykjavík, FNV, Fab Lab og aðra áhugasama aðila bæði hérlendis og erlendis hefur tekist að koma á fót vísi að þekkingarfyrirtæki á Sauðárkróki.
Og þarna ætlum við að sækja enn meira fram og síðar í þessum mánuði fer framkvæmdastjórinn okkar til Svíþjóðar til fundar við söfn og sýningar þar, með það fyrir augum að fá þau með okkur í samstarf í þessum efnum. Takmarkið er útflutningur á íslensku hugviti og reynslu í nýtingu tækni í miðlun menningararfs. Þarna eru tækifæri í uppbygginu verðmætra starfa. Við höfum þegar sýnt að störf hjá okkur eru spennandi og að þau laða ungt fólk aftur í héraðið og það er mjög gleðilegt.
Hugmyndin okkar er að reka hér á Sauðárkróki öfluga sýningu um Sturlungaöldina þar sem við prófum og þróum lausnir á sviði stafrænnar miðlunar sem við síðar förum með út á markað. Þá ætlum við okkur að opna nokkurs konar útibú, eða gestasýningar víðar um land þar sem við nýtum tæknina ýmist til að miðla hluta af því sem við erum með á Sauðárkróki, eða þróum miðlun á öðrum sögum í samstarfi við heimaaðila á hverjum stað. Fyrsta gestasýningin mun opna í Víkingaheimum í Reykjanesbæ á næstu dögum.
Á þessu öllu má sjá að starfsemi Sýndarveruleika er fjölbreytt og spennandi og framtíðarsýnin er skýr. Frá opnun sýningarinnar hafa eigendur fyrirtækisins staðið myndarlega á bak við það og lagt því til fjármagn til að halda rekstrinum gangandi í gegnum heimsfaraldurinn. Alls hefur fyrirtækið greitt yfir 112 milljónir kr. í laun frá því að rekstur hófst á Sauðárkróki, auk þess að greiða áðurnefndan rekstrarkostnað húsnæðis og annan rekstrarkostnað. Áætlanir eru um að fjölga í starfsmannahópnum og auka umsvif í takt við aukinn ferðamannastraum.
Markmið þeirrar uppbyggingar sem Sveitarfélagið Skagafjörður og Sýndarveruleiki ehf. fóru af stað með var skýrt. Að búa til áhugaverðan áningarstað fyrir ferðafólk á Sauðárkróki og efla þannig Sauðárkrók, Skagafjörð og Norðurland allt sem áfangastað fyrir ferðafólk. Með því að fjölga hér ferðafólki stækkar sú kaka sem ferðaþjónustan á svæðinu hefur til skiptanna. Þannig nýta gestir sem koma gagngert á Sauðárkrók til að skoða sýningar 1238 sér aðra þjónustu s.s. veitingar, gistingu og mögulega aðra afþreyingu, öllum til hagsbóta. Umræðan um hvort það hefur tekist vel eða illa verður ekki tekin í kjölfar heimsfaraldurs, sú umræða verður að bíða í nokkur ár, enda hér ekki tjaldað til einnar nætur.
Góðar móttökur og björt framtíð
Móttökur við starfsemi okkar hafa verið framúrskarandi góðar og fyrir þær erum við þakklát. Gestir okkar eru mjög ánægðir með sýninguna, einkum og sér í lagi sýndarveruleikahluta hennar. Gildir þar einu hvort um er að ræða börn, ungmenni eða jafnvel eldra fólk og ánægjan er óháð kyni. Sýningin hefur hlotið tilnefningar til alþjóðlegra verðlauna á sviði stafrænnar miðlunar, sem kallast Heritage in Motion og einnig fengið viðurkenningu sem sproti ársins hjá Markaðsstofu Norðurlands. Einna vænst þykir okkur um viðbrögð heimafólks, Sturlungaáhugafólks og langflestra kollega í ferðaþjónustunni sem hafa tekið sýningunni og allri starfseminni í Gránu afar vel. Þá höfum við reynt að auðga menningarlíf á svæðinu með viðburðum sem hefur verið vel tekið.
Við lítum þannig á að framtíð ferðaþjónustu og þekkingardrifinnar nýsköpunar í Skagafirði sé björt og við ætlum að vera hluti af þeirri framtíð. Okkur vantar ennþá ýmislegt hér á Sauðárkrók, flestir eru sammála um að stórt og öflugt hótel sé ákveðin forsenda framfara hér í ferðaþjónustu, sem og fleiri öflugir veitingastaðir sem eru opnir. En við erum sannfærð um að með jákvæðni, þolinmæði, framsýni, samstöðu og hagstæðum ytri áhrifum takist okkur að ná markmiðum okkar á komandi árum.
Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Sýndarveruleika ehf.
Ingvi Jökull Logason stjórnarformaður Sýndarveruleika ehf.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.