Svokallað hrun kemur senn á markaðinn
Böddi Halldórs hyggst á morgun setja á markað nýjan bjór sem hann hefur verið að þróa undanfarnar tvær vikur í bílskúr sínum hér norðan heiða. Dreifarinn hitti Bödda og ræddi við hann undir fjögur.
-Ég er bara búinn að vera svo reiður, segir Böddi. –Það er kominn tími til að gera eitthvað í málunum. Ég er búinn að reyna að stofna framboð, svona hreyfingu eða afl, en ég hef ekki fundið neinn sem vill vera með mér. Það eru allir svo uppteknir við að barma sér út af þessu svokallaða hruni. En sjáum nú til. Það var ekkert hrun! Þetta hrun sem varð, það var ekkert hrun. Fólk þekkir ekki alvöru erfiðleika í dag, það man ekki frostaveturinn mikla, kreppuna miklu, einokunarverslunina miklu og svarta dauða. Það voru erfiðleikar. Nei, nú miklar fólk allt fyrir sér, það á ekki fyrir skuldum, á ekki fyrir mat og Stöð2. Þetta eru ekki erfiðleikar vinur minn.
Hvað ætlarðu að gera Böddi? –Ég er bara búinn að fá nóg. Ég er reiður og það eina sem mér datt í hug til að mótmæla þessum landlæga barlómi er bara að hrynja í það.
En hvers vegna ætlarðu að setja þinn eiginn bjór á markaðinn? –Ja, ég hef ekki efni á að kaupa mér bjór svo ég set bara minn eiginn bjór á markaðinn. Og á ég að segja þér hvað ég ætla að láta hann heita, vinur? Hann á að heita Svokallað hrun. Já vinur, ég held að Svokallað hrun eigi eftir að slá í gegn hjá þjóðinni, hehe.
Þér hefur ekki dottið í hug að láta hann heita Bödda? –Nei, ég held að það nafn mundi ekki gera sig á bjór.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.