Svín á hverjum bæ á Langholti á landnámsöld
Rannsóknir bandaríska SASS-teymisins (Skagafjörður Archaeological Settlement Survey) hafa leitt í ljós að svín voru haldin á hverjum bæ á Langholti á landnámsöld. Fundist hafa tennur úr svínum á flestum bæjunum og þeim kom á óvart að finna vitnisburð um svínahald á smábýlunum Meðalheimi og Torfgarði.
Hafi svín verið eins algeng og rannsóknirnar sýna verður að búast við að svínakjöt hafi verið á flestra borðum fyrstu aldir búskapar í landinu. Taka skal fram að svínatennur fundust í mun minna mæli en tennur nautgripa og sauðfjár.
Svín voru ræktuð á Íslandi frá landnámi og fram á 16. öld. Þá dó upprunalegi stofninn út. SASS-sýnin voru flest tekin úr mannvistarleifum sem fundust undir öskulagi frá Heklugosi árið 1104.
Þess vegna sýna þau ekki hvenær Langhyltingar hættu að halda svín eða hvenær fyrst fór að draga áberandi úr svínahaldi. Búast má við að yfirfæra megi búskaparhætti Langhyltinga yfir á aðra skagfirska bændur þannig að svín hafa sennilega verið áberandi í húsdýrahaldinu á fyrstu öldum. Margt hefur breyst síðan þá og nú ræktar enginn lengur svín í Skagafirði.
Þetta kemur fram á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga.
Það skal leiðrétt að á Hellulandi í Hegranesi er rekið svínabú þó ekki hafi það starfað lengi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.