Sviðamessa til styrktar fyrstu vegasjoppunni á Íslandi

Mynd af viðburðasíðu Sviðamessu.
Mynd af viðburðasíðu Sviðamessu.

Boðað hefur verið til sviðamessu nk. laugardag, 29. október, í Félagsheimilinu á Hvammstanga og mun allur ágóði viðburðarins mun renna til endurbyggingar Norðurbrautar, fyrstu vegasjoppunnar, sem hugmyndir eru um að komið verði fyrir á lóð Verslunarminjasafnsins ásamt Bangsabát.

Á Facebooksíðu viðburðarins kemur fram að sagt verði stuttlega frá sögu Norðurbrautar og áform kynnt um endurbygginguna og hugmyndir um staðsetningu. Þá verða á borðum bæði heit og köld svið, sviðalappir og tilheyrandi meðlæti og á barnum til sölu bæði áfengir og óáfengir drykkir. Húsið/barinn opnar kl. 19:00 og borðahald hefst kl. 20:00.

Hverjir stíga á SVIÐ?

Veislustjóri verður hinn síkáti Ingimar á Kjörseyri. Fram koma m.a.: Söng- og tónlistarhópurinn Næturgalarnir, Elinborg Sigurgeirsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir á píanó og þverflautu auk Stórhljómsveitar Elinborgar harmonikkuhljómsveitar með meiru. Þá verða happdrættismiðar til sölu með fjölda frábærra vinninga.

Aðgöngumiðar verða seldir hjá Þuríði Þorleifsdóttur í síma 845 0586 en fyrirtæki og einstaklingar á svæðinu styrkja þetta framtak með því að gefa mestallt hráefni og vinnu. Miðaverð 6.000 krónur.
„Missið ekki af einstakri veislu og skemmtun. Fyrstir koma, fyrstir fá,“ segir í Facebookfærslu Verslunarminjasafnsins og samstarfsaðila.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir