Sveitarfélög á Norðurlandi vestra leggjast gegn frumvarpi um hálendisþjóðgarð
Sveitarstjórnir fjögurra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra; Húnavatnshrepps, Húnaþings vestra, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps, hafa samþykkt sameiginlega umsögn við frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til laga um Hálendisþjóðgarð. Málið hefur verið til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda en sveitarfélögin hafa fjallað um málið á fyrri stigum og leggjast gegn framgangi þess í núverandi mynd.
„Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð er kynnt samhliða frumvarpi til laga um Þjóðgarðsstofnun og þjóðgarða. Í því frumvarpi koma fram meginreglur um þjóðgarða sem gilda myndu um hálendisþjóðgarð og nær umsögnin jafnframt til þess frumvarps. Sveitarfélögin eru landstór. Mörk þeirra liggja á Langjökul, Hofsjökul og Kjöl og ná yfir víðáttumikil landsvæði innan miðhálendisins. Tillögur nefndar um undirbúning Miðhálendisþjóðgarðs hafa gert ráð fyrir að stór landsvæði sveitarfélaganna falli innan þjóðgarðs. Málefnið varðar sveitarfélögin og íbúa þess miklu. Svæði sem lagt hefur verið til að falli innan þjóðgarðs hafa verið í umsjón sveitarfélaganna vegna nálægðar og stöðu afréttarmálefna síðustu árhundruð. Á síðustu áratugum hefur ábyrgð og umsjón sveitarfélaga verið formfest með auknu stjórnsýslulegu hlutverki, t.d. á sviði skipulagsmála.“
Að mati sveitarstjórnanna fjögurra er engin nauðsyn til stofnunar þjóðgarðs með þeim hætti sem frumvarpið felur í sér. Ekki liggi fyrir veigamikil rök á sviði náttúruverndar um stofnun þjóðgarðs. „Þvert á móti. Frumvarpið byggir á því að eignarréttar- og stjórnunarlegar ástæður ráði afmörkun, þ.e. að þjóðlendur innan miðhálendislínu verði lagðar til þjóðgarðs. Með því móti verður ráðstöfunarréttur sveitarfélaga og markaðar tekjur þjóðlenda innan hvers sveitarfélags, felldar niður.“
Umsögnin var samþykkt í byggðarráði Svf. Skagafjarðar með tveimur atkvæðum Stefáns Vagns Stefánssonar (B) og Gísla Sigurðssonar (D) en Bjarni Jónsson (Vg og óháð) lét bóka að flokkur hans stæði ekki að umsögninni. Áheyrnarfulltrúi í byggðaráði, Ólafur Bjarni Haraldsson (BL) lét hins vegar bóka að hann styðji framangreinda umsögn.
Byggðarráð Húnaþings vestra samþykkti umsögnina samhljóða á fundi sínum sama dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.