Sunnanstúlkur lögðu Stólastúlkur í æfingaleik
Kvennalið Tindastóls í körfunni lék fyrsta æfingaleik sinn fyrir komandi keppnistímabil í gærkvöldi. Liðið kemur mikið breytt til leiks í vetur, tíu stúlkur voru á skýrslu og þar af fjórar að spila sinn fyrsta leik með liði Tindastóls; Anika, Rannvegi, Inga Sigríður og Brynja Líf. Andstæðingurinn var sprækt lið Hamars/Þórs og höfðu gestirnir betur, sigruðu 50-57.
Feykir spurði nýjan þjálfara Tindastóls, Helga Frey Margeirsson, hvernig leikurinn hafi verið en hann byrjaði á að hæla stuðningsmönnum fyrir góða mætingu í Síkið. „Það gefur góð fyrirheit fyrir veturinn. Leikmennirnir eru enn að læra á hverja aðra og nýjan þjálfara svo það er margt nýtt í gangi en stelpurnar stóðu sig mjög vel og eiga hrós skilið fyrir það hvernig þær börðust í leiknum.“
Helgi segir að leikurinn hafi þróast nokkuð eins og við mátti búast, var villtur í upphafi, mikið um stuttar hraðar sóknir og mistök í bland en svo komu inn á milli vel útfærðar sóknir og þéttar varnir sem var gaman að sjá. Lið sunnanstúlkna var að spila sinn fjórða æfingaleik á undirbúningstímabilinu en þeir hafa allir verið á móti Subway-liðum. Þær náðu sterkum spretti í öðrum leikhluta og fóru inn í hálfleik með góða forystu. Tindastólsstelpur komu svo ákveðnar út í þriðja leikhluta og héldu gestunum í tíu stigum, þar af eina körfu utan af velli en hin stigin komu úr vítaskotum í þeim leikhluta.
„Í fjórða leikhluta var leikurinn í járnum og náðu Tindastólsstelpur að keyra muninn, sem á tíma var sautján stig fyrr í leiknum, niður i fjögur stig en því miður féll þetta ekki með okkur í þetta skiptið en tækifærin voru svo sannarlega til staðar. Ég er ánægður með stelpurnar og hvernig þær lögðu sig fram fyrir hvor aðra og stuðningsfólkið sem kom á leikinn. Þær eru búnar að leggja hart að sér á æfingum og það mun skila sér og þær vita að þetta er bara upphafið hjá okkur. Við eigum eftir að pússa þetta allt betur saman og þá verður ennþá meira gaman hjá okkur,“ segir Helgi og bætir við að Emese hafi orðið þrítug í gær. Það var gaman að sjá allar stelpurnar sem æfa körfubolta og komu á leikinn koma til hennar með gjafir eftir leik og fá köku hjá henni,“ segir Helgi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.