Sauma innkaupapoka til láns
Í byrjun þessa árs var stofnaður hópur á Facebook undir nafninu Saumum innkaupapoka til láns en nafninu hefur nú verið breytt í Pokastöðin í Skagafirði. Sú sem á heiðurinn af stofnun hans er Þuríður Helga Jónasdóttir, kennari við Grunnskólann austan Vatna á Hólum og Hofsósi, og fljótlega gekk Svanhildur Pálsdóttir, hótelstjóri í Varmahlíð, í hópinn. Hleyptu þær af stokkunum saumahópum sem hafa hist öðru hvoru í þeim tilgangi að sauma innkaupapoka sem hægt verður að fá að láni í verslunum. Enn sem komið er hafa engir karlar sinnt kallinu en þó nokkur hópur kvenna hefur lagt sitt af mörkum og hafa þær tekið sér vinnuheitið Skreppur en orðið getur þýtt skjóða eða malur og nota þær heitið jafnt á konurnar sjálfar og pokana.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar Helga sá sambærilegt verkefni í Ástralíu sem kallast Boomerang Bags. Á sama tíma las Svana um Pokastöðina á Höfn í Hornafirði og saman létu þær til skarar skríða og nú hafa saumahópar tekið til starfa út um allan fjörð þar sem saumaðir eru pokar úr gömlum gardínum, bolum, skyrtum og hverju því sem til fellur. Nýlega gerðist svo Pokastöðin í Skagafirði formlega aðili að Boomerang Bags. Ætlunin er að byrja á að setja upp pokastöðvar í þremur verslunum á svæðinu, í KS Varmahlíð og Hofsósi og í Hlíðarkaupum og einnig hefur Héraðsbókasafnið sýnt áhuga á að vera með. „Okkur langar til að geta komið pokunum í búðirnar í byrjun maí, við viljum opna pokastöðvarnar í öllum búðunum á sama tíma og þá þurfum að eiga nokkur hundruð poka fyrir hverja búð svo betur má ef duga skal,“ segja þær stöllur.
Þær Svana og Helga vilja gjarna koma því á framfæri að ef fólk vill styrkja þær, t.d. efnaverslanir með gömlum efnum af lager, og ekki síður tvinna, þá taki þær því með feginshendi. Það eiga allir eitthvað sem hægt er að nota, gamlar vinnuskyrtur og boli, gardínur, dúka og sængurfatnað, sama þó það sé slitið, það má þá sníða höldur úr því. Einnig benda þær á að Facebookhópurinn er galopinn, allir geta „addað“ öllum og eru hvattir til þess.
Nánar má lesa um verkefnið í nýjasta tölublaði Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.