Strjúgur í Langadal :: Torskilin bæjarnöfn
Strjúgur í Langadal sem svo er nú skrifað og framborið, nálega af hverjum manni. Landnáma varpar ljósi yfir nafnið. Einn af sonum Evars, er „bjó í Evarskarði“ (ekki vita menn nú hvar Evarsskarð er, en líkur má færa fyrir því, að það muni vera það sem nú er kallað Litla-Vatnsskarð), var „Þorbjörn strúgr“ ; . . . Véfröðr sonur Evars „gerði bú at Móbergi enn Þorbjörn strúgr á Strúgsstöðum“ (Ldn. bls. 136).
Ekki verður nákvæmlega ákveðið hvenær nafnið hefir styzt í Strúgr, en fyrir
1390 hefir það orðið, því þá er Hamri fyrir vestan Blöndu eignaður „torfskurður á Strúgi“ (DI. III. 457). Og eftir þetta verður Strúgs-staða-nafnsins tæplega vart í fornskjölum. Á hinn bóginn hefir ávalt verið ritað Strjúgr (ekki Strjúgur) a.m.k. fram á 16. öld (DI. V. 220). Annars er það kynlegast um þetta nafn, að altaf mun hafa rofað fyrir rjetta nafninu, Strjúgsstaðir, þótt notuð væri aðeins styttingin í ræðu og riti (sbr. Þórður á Strúgi). Samnefni hefi jeg ekki getað fundið, nema örnefnið Strjúgsklett í heimalandi Helgafells vestra (Safn II. B. bls. 305). Fornyrðið Strúgr þýðir ofstopa, hroka o.s.frv. og er töluvert þekt í fornritum. Snorri Sturluson notar orðið í Háttatali sínu, sbr. þetta, síðast í 25. erindi:
, …. …. ….
Strúgs kemur í val veiga,
vín kalla ek þat, galli.
(Sn,-E.bls.315. Strúgsgalli = dramb (ofdrykkjan eykur dramb) = vínið (sbr. Lex. Poet. bls. 541).
Alf Torp telur þetta orð runnið af germ. orðrótinni strug þ.e. „vera stinnur“, sæ. stru = hefndargjarn (A. T. Nyn. Etyml. Ordb. bls. 729. Vafamál að orðið tíðkist í nýíslenzku eins og Torp segir).
Jeg verð að benda á, það, um bæði þessi nöfn Auðkúlu og Strúg, að hefði Landnáma ekki verið til frásagnar um uppruna nafnanna, hefði aldrei verið hægt að fá vissu um Strjúgsstaðanafnið. Jafnvel sú tilgátan sem hitt hefði „naglann á höfuðið“, hefði aldrei orðið annað en tilgáta.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.