Stríð í Evrópu :: Leiðari Feykis
Það er óhugnalegt til þess að hugsa, og jafnframt afar þungbært, að loks þegar við sjáum fyrir endann á þeim heimsfaraldri sem hefur haldið jarðarbúum í nokkurs konar heljargreipum í tvö ár með öllum þeim gríðarmiklu mannfórnum og efnahagsþrengingum sem honum fylgir, skuli heimsbyggðin svo vakna upp við þann vonda raunveruleika að stríð sé skollið á í Evrópu.
Það er rétt um vika síðan Pútín Rússlandsforseti atti her sínum á bræðraþjóð og hóf allsherjar innrás í Úkraínu. Mörgum kom það illvirki á óvart þrátt fyrir hótanir hans um innrás og sem dæmi lét úkraínskur blaðamaður, sem búsettur er hér á landi, hafa það eftir sér í Fréttablaðinu rétt rúmri viku fyrir aðgerðir Rússa að hann teldi litlar líkur á innrás sökum úreltra hergagna rússneska hersins. Íslendingur búsettur í Kænugarði sagði þó í sömu frétt að meiri líkur væri á innrás en taldi almenning í borginni þó ekki óttasleginn.
En innrásin er staðreynd og sérfræðingar í alls konar fræðum reyna að átta sig á hvað vakir fyrir Pútín. Ómögulegt er fyrir dúdda eins og undirritaðan að gera sér grein fyrir því en ýmsar spurningar vakna hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir slíkan hildarleik með því að lesa rétt í stöðuna áður en Rússar létu til skarar skríða. Mörg teikn voru á lofti en hægt er að finna ýmsar sagnir um það að undir lok ársins 2021 og í byrjun ársins 2022 höfðu Rússar safnað tæplega 200.000 manna herliði við landamæri Úkraínu. Töldu einhverjir að Pútín væri þó eingöngu að kreppa hnefana og sýna „sixpack-ið“ áður en hann héldi heim aftur.
En hætta á innrás var yfirvofandi þrátt fyrir að Rússnesk stjórnvöld hafi ítrekað þvertekið fyrir að innrás væri yfirvofandi. Í fréttum á RÚV þann 21. febrúar sl. segir að Pútín hafi viðurkennt sjálfstæði alþýðulýðveldanna Donetsk og Luhansk, héraða rússneskumælandi aðskilnaðarsinna sem höfðu klofið sig frá Úkraínu árið 2014 með stuðningi Rússa og í kjölfarið sent rússneska hermenn yfir úkraínsku landamærin til að gegna „friðargæslu“ þar, eins og segir á Wikipedia.
Í gær mátti svo lesa á Mbl.is að Pútín verði óþolinmóðari eftir því sem líður á þar sem gengi herliðs hans hefur ekki staðið undir væntingum vegna harðrar mótspyrnu Úkraínuhers og þykir því ekki ólíklegt að hann muni beita enn meiri árásargirni en hann hefur gert hingað til.
Hvernig sem allt fer snertir þessi aðför Pútíns okkur öll þó Úkraína sé okkur fjarri landfræðilega og skulum við vona að þetta ófremdarástand eigi eftir að lagast áður en fleiri fara að blanda sér í beinan stríðsrekstur. Enginn veit hvaða hörmungar bíða okkar þá.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.