Strákarnir okkar eru ekki strákarnir hans
Freyr Gallsteinsson hrossaræktandi kom að máli við ritstjórn nú í upphafi vikunnar og sagði farir sínar ekki sléttar. Það er handboltinn sem er alveg að leggja líf hans í rúst.
Freyr kannast ekkert við að nafn hans hafi handboltalegan hljóm. -Ég vil bara að það komi fram að þetta eru ekki strákarnir mínir, þeir eru ekki hætishót skildir mér eins og alltaf er verið að ýja að. Ja, ekki svo ég viti til og ég hef ekki séð ættarsvipinn minn á neinum þessara pilta.
Aðspurður sagðist Freyr hafa ímugust á handbolta. -Þetta eru bara skrílslæti og endalausar barsmíðar. Ekki skil ég hvernig þeim hjá Ríkisútvarpinu dettur í hug að sýna þennan ósóma. Og svo vinna þeir aldrei neitt þessir eymingjar, eru í mesta lagi að koma heim með silfur eða brons. Ég er búinn að sækja þó nokkur heimsmeistaramót íslenska hestsins og ég get nú sagt ykkur það að alltaf er það íslenski hesturinn sem stendur uppi sem sigurvegari.
En Freyr, það er bara keppt á íslenskum hestum á HM íslenska hestsins. Þú vissir það? -Nja, það eru fréttir fyrir mér góði minn!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.