Stórgóðir konudagstónleikar í Miðgarði
Kvennakórinn Sóldís bauð upp á stórgóða tónleika í gær á konudaginn í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Dagskráin bauð upp á fjölbreytt lagaval; klassísk óperukórverk, dægurlög og þjóðlög á ýmsum tungumálum. Að venju var svo boðið upp á dýrindis veisluhlaðborð í lokin. Ragnheiður Petra Óladóttir þreytti frumraun sína sem einsöngvari með kórnum.
Kórinn er skipaður 53 konum úr Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu og eru kórstjórinn, Helga Rós Indriðadóttir, og undirleikarinn, Rögnvaldur Valbergsson, innfæddir Skagfirðingar. Á tónleikunum komu fram þrír einsöngvarar, þær Ólöf Ólafsdóttir, Íris Olga Lúðvíksdóttir og Ragnheiður Petra Óladóttir, sem kom fram í fyrsta sinn sem slíkur í Skagafirði.
Petra tók þátt í Óperuakademíu unga fólksins í Hörpu á síðasta ári og er óhætt að segja að frumraunin hafi tekist vel og undirtektir áhorfenda eftir því. Þær Ólöf og Íris Olga hafa áður sungið einsöng með kórnum og gera það einkar vel. Íris söng á ensku en Ólöf gerði gott betur og söng á swahili og að sjálfsögðu söng kórinn með.
Húsfyllir var á tónleikunum og klöppuðu gestir hressilega fyrir hverju atriði og sérstaklega í lokin þegar kórinn var klappaður upp. Stórgóðir tónleikar hjá stórgóðum kór.
Kórinn heldur fleiri tónleika en á morgun, 21. febrúar, munu Sóldísir stíga á stokk í Blönduóskirkju klukkan 20:30. Einnig er stefnan tekin á Hofsós í byrjun apríl og svo tekur kórinn þátt í Sæluviku. Í byrjun júní er svo áætlað að fara í söngferð í Reykholt og Hvammstanga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.