Stóra upplestrarkeppnin í Skagafirði í gær

Þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni í Skagafirði 2016. Mynd: Herdís Sæmundardóttir.
Þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni í Skagafirði 2016. Mynd: Herdís Sæmundardóttir.

Stóra upplestrarkeppnin var haldin í sal bóknámshúss FNV í gær og þar öttu kappi tólf nemendur úr öllum grunnskólunum Skagafjarðar og lásu textabút úr sögu og tvö ljóð. Nemendurnir stóðu sig með stakri prýði og báru þess glöggt vitni að hafa æft sig af kappi og fengið góða þjálfun hjá kennurum sínum. Nemendur Tónlistarskóla Skagafjarðar léku svo nokkur lög fyrir gesti hátíðarinnar.

Jón Hjálmar Ingimarsson, nemandi í Varmahlíðarskóla, hlaut fyrsta sæti, Eva María Rúnarsdóttir úr Árskóla annað sæti og Helena Erla Árnadóttir, einnig úr Árskóla, það þriðja. Hafsteinn Máni Björnsson úr Varmahlíðarskóla fékk að auki sérstaka viðurkenningu dómnefndar.

Í viðurkenningarskyni fengu allir keppendur sérprentaða ljóðabók með ljóðum eftir Guðmund Böðvarsson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og verðlaunahafar að auki peningagjöf.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar er meiri uppskeruhátíð en keppni, því allir nemendur sjöundu bekkja grunnskólanna hafa lagt hart að sér við að æfa framsögn síðan á degi íslenskrar tungu og náð miklum árangri. Nú hefur því enn einn árgangur bæst í hóp þjálfaðra upplesara um allan fjörð.

Fréttatilkynning

Meðfylgjandi myndir tók Herdís Sæmundardóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir